Norski sendiherrann, Dag Wernø Holter, sem verið hefur í starfi sendiherra á Íslandi, frá því í september s.l. heimsótti Ísafjörð og Flateyri, 13. og 14. apíl 2011. Heimsóknina skiplagði ræðismaður Norðmanna á Ísafirði, Birna Lárusdóttir. Ég átti þess kost að vera með þeim bæði á Ísafirði og á Flateyri. Dag og Birna heimsóttu fjölda aðila m.a. 3X Technology, HG í Hnífsdal, bæjarskrifstofurnar, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Þróunarsetrið og Háskólasetur Vestfjarða. Þá bauð bæjarstjóri og bæjarráð til hádegisverðar í Tjöruhúsinu í Neðsta og var það fyrsta opnun veitingastaðarins í ár. Af samtölum við sendiherrann er ljóst að hann hefur mikinn áhuga á að efla samstarf milli vinaþjóðanna. Margt er til að deila á milli þjóðanna og tækifærin óþrjótandi, bæði á sviði sveitarstjórnarmála, atvinnulífs og lista og menningar.
Sigrún Gerða Gísladóttir húsfreyja á Sólbakka aðstoðaði mig við að taka á móti Dag og Birnu og bauð okkur uppá magnaða grænmetisböku í hádegisverð. Ég sýndi þeim glæsilegt hús Önfirðingafélagsins á Sólbakka 6. Skoðuðum við m.a. myndir í kjallara þar sem unnt var að sjá ágætt yfirlit yfir þær átta hvalveiðistöðvar sem staðsettar voru á Vestfjörðum árabilið 1883 til 1915. Auðvitað reyndum við að sýna framá hversu góð og náin samskipti við höfum átt við Norðmenn í gegnum árin og áratugina. Fórum yfir söguna (sem Dag er alveg með á hreinu), allt frá landnámi Önundar Víkingssonar og til dagsins í dag (eða næstum því alla vega!).
Sýndi ég þeim m.a. myndir af heimsókn vina okkar í Noregi frá Stokke og Vestfold fylki fyrir nokkrum árum, sem Önfirðingafélagið átti allan veg og vanda að. Dag sýndi þessu máli mikinn áhuga og þeim miklu samskiptum sem Önfirðingafélagið hefur átt við Norðmenn. Þá kynntum við Sigrún sögu þorpsins, sigra og áföll. Eftir hádegisverðinn ókum við niður á Eyri og stöðvuðum við minningarsteininn vegna þeirra sem fórust í snjóflóðinu 1995. Að því loknu var ekið niður að "norsku húsnunum" við Hafnarstræti, sem byggð voru af þeim Rósinkransbræðrum, Sveini, Bergi og Kjartani.
Sunna Dís Másdóttir er húsfreyja í bókabúðinni "Bræðurnir Eyjólfsson" sem nú er orðin safn og tók hún á móti okkur í lok heimsóknarinnar. Sýndi safnið og íbúð kaupmannhjónanna. Farið var aftur yfir söguna og þorpsins útfrá verslun og þjónustu. Stundin sem við áttum þarna var yndisleg - þökk sé Sunnu Dís.
Áður en Dag og Birna kvöddu okkur færði ég sendiherranum dagatal Önfirðingafélagsins árið 2011 og Birna hjálpaði mér við að segja skemmitlegar sögur m.a. af úgáfu dagatalsins sem komið hefur út lengur en elstu menn muna.
Veðrið hefði mátt vera betra, en það birti reyndar til seinnipartinn og Dag Wernø Holter, tókst að fljúga til höfuðborgarinnar með síðdegisfluginu í góðu veðri. Vonandi hefur upplifun hans af Vestfirðingum, samfélagi og atvinnulífi, haft þau áhrif að hann komi sem fyrst (og oftast) aftur.
Eitt er ljóst: Dag Wernø Holter sendiherra, er glæsilegur og traustvekjandi fulltrúi vinaþjóðar okkar og Birna Lárusdóttir glæsilegur ræðismaður og okkar samfélagi til sóma.
Eiríkur F Greipsson