Ríkisstjórn Íslands sýndi Vestfirðingum þann sóma að koma í heimsókn í höfuðstað Vestjfarða þann 5. apríl sl. Á fundi sem næstum fullskipuð ríkisstjórn hélt með hátt á fjórða tug sveitarstjórnarmanna frá öllum kjálkanum var kynnt áætlun í 14. liðum um aðgerðir til „eflingar byggðar á Vestfjörðum.“ Nokkrar væntingar voru auðvitað í huga okkar sem mættum á fundinn, þó forsætisráðherra væri búin að vara við of miklum væntingum áður en til fundar kom.
Forsætisráðherra setti fundinn með stuttu ávarpi og þar vakti sérstakan áhuga minn, orð sem hún lét falla um byggðaþróun á Vestfjörðum. Hún sagði okkur nefnilega að Þóroddur Bjarnason prófessor á Akureyri, hafi heimsótt hana fyrir skömmu og kynnt fyrir henni rannsóknir sínar á íbúaþróun á Vestfjörðum og nálgun hans á orsökum þeirrar þróunar. Kynningin hafði svo mikil áhrif á forsætisráðherra, samkvæmt hennar eigin orðum, að hún tjáði okkur að ef til vill ætti þessi kynning að vera skyldukynning fyrir ALLA Alþingismenn að hlýða á!
Er þarna ef til vill undirliggjandi ástæðan fyrir erfiðleikum okkar Vestfirðinga (landsbyggðarinnar) að ná skilningi framkvæmdavaldsins og löggjafans? Er þekkingin á vanda okkar og ástæðum byggðaþróunar ekki til staðar í æðstu stofnun lýðveldisins, Alþingi við Austurvöll? Hvað þá með alla „Sir Humphrey-jana“ (Já, ráðherra!), í stjórnarráðinu íslenska?
Við þessu verður auðvitað að bregðast hið snarasta! Ég skora á alla þá sem vettlingi geta valdið að koma nú á kynningarfundum með Þóroddi Bjarnasyni og þessu hæfa og vel meinandi fólki sem skipar Alþingi og embætti stjórnarráðsins. Því þetta er upp til hópa mjög gott fólk. Jóhanna Sigurðardóttir á auðvitað að hafa um þetta forystu!
En um leið býð ég hér með öllum Alþingismönnum að koma í heimsókn á Ísafjörð, þar sem ég mun sjá um að þeim verði sýnt svæðið, hvað er að gerast hér, hvar skórinn kreppir, hvað þarf að gera og síðast en ekki hvað síst að kynna þeim drifkraftinn sem hér býr í hverjum einstaklingi.
Það er ekki síður áhugavert að velta fyrir sér áhrifunum sem innanríkisráðherrann Ögmundur Jónasson, bloggaði um stuttu eftir fundinn með okkur um daginn. En hann sagði: „Rauði þráðurinn í málflutningi sveitarstjórnarfólks var öllum augljós: Við viljum sitja við sama borð og aðrir landsmenn í samgöngumálum, hvað varðar húshitunarkostnað, flutningskostnað. Ekkert meira, ekkert minna, bara sama og aðrir.“ Segja má, „glöggt er gests augað!“ Er það samt ekki einkennilegt að það þurfi að fá þetta góða fólk hingað inn á milli einstakra fjallanna til að átta sig á þessu einfalda en sjálfsagða máli: Ekkert meira, ekkert minna, bara sama og aðrir! Það hlýtur því að vera auðvelt fyrir stjórnvöld sem kenna sig við velferð og jöfnuð, að uppfylla óskir okkar um jöfnun lífsins gæða.
Aftur að tillögum ríkisstjórnarinnar! Ég verð að lýsa ánægju minni með þessar tillögur. Auðvitað hefðu þær átt að vera fleiri, skýrari og kraftmeiri! En það var bara ekki „gefið“ meira að þessu sinni. Það er hins vegar okkar sem heima sitjum að hefja nú gunnfánann við hún og ganga fram til orrustu. Ekki gegn neinum, nei, bara til þess að tryggja okkar þátt í því „sama og aðrir“ hafa. Tillögurnar eru okkar vopn og eldsneyti. Ríkisstjórnin var reyndar svo gæfusöm, að bæta við upphaflegu tillögur sínar í 14 liðum, tveim grundvallaratriðum, það er um lækkun flutningskostnaðar og jöfnun húshitunarkostnaðar. Þessi tvö atriði ásamt samgöngumálum eru þau allra mikilvægustu í baráttu landsbyggðarfólks og atvinnulífs sem þarf að útkljá STRAX.
Vissulega veldur hver á heldur. Við skulum því þjappa liðinu saman og nýta krafta okkar samfélags til að fylgja því eftir að kynna okkar málstað betur og að vinna með stjórnvöldum að framkvæmd þeirra mála sem gefin voru fyrirheit um í 16 liðum á fundi ríkisstjórnar Íslands þann 5. apríl síðastliðinn.
Byggjum upp og gerum gott samfélag betra!
Eiríkur Finnur Greipsson form. bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.