Helstu viðfangsefni bæjarstjórnar
Á fundi Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Ísafjarðarbæ, þann 1. febrúar 2011, gerði ég grein fyrir nokkrum af þeim viðfangsefnum sem bæjarstjórn hefur unnið að frá kosningum í maí 2011. Listinn sem ég talaði útfrá fer hér á eftir, en hann er saminn eftir minni og alls ekki tæmandi:
- Haldnir hafa verið 12 bæjarstjórnarfundir, 27 bæjarráðsfundir. Ekki er skráður fjöldi meirihlutafunda.
- Aðrir fundir eru ótaldir hér, en formaður bæjarráðs skráði t.d. 44 fundi í október og nóvember eingöngu tengda bæjarmálum.
- Ný Bæjarmálasamþykkt þar sem kveðið er á um aukið íbúalýðræði og myndun hverfisráða (íbúasamtaka) sem hafi ákveðinn sess í stjórnsýslu bæjarins.
- Fjárhagsáætlunargerð ársins 2011 – unnin í ágætu samstarfi við minnihluta. Þriggja ára áætlun hefur verið í mótun og sér fyrir enda þeirrar vinnu.
- Á vegum Atvinnumálanefndar og bæjarráðs er unnið að stefnumótun í atvinnumálum, en það er einnig unnið í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.
- Einstök mál sem hafa komið oftar en einu sinni á dagskrá bæjarstjórnar og bæjarráðs eru m.a. opnunartími/vínveitingaleyfi vínveitingastaðarins Langa Mangi, fjármál Edinborgarhúsins vatnssamningur við Lindarfoss (áður Brúarfoss). Deiliskipulag í Tunguskógi/tjaldsvæði, Dagverðardal og Torfnesi o.fl.
- Skipulagsmál eru stórt viðfangsefni. Samþykktar hafa verið reglur um breytt verklag við undirbúningsvinnu að skipulagsvinnu. Eru þær reglur byggðar á góðri reynslu af vinnu við Aðalskipulag bæjarins, sem bænum voru veitt verðlaun fyrir í Desember s.l.
- Unnier er að endurskoðun rekstrar á mörgum sviðum s.s. á Hlíf, slökkviliði, stjórnkerfi, skólum, áhaldahúsum og í skrifstofuhaldi.
- Stefnumótun í skólamálum (leik- og grunnskólum) er á góðu skriði.
- Samstarfssamningur var gerður (endurnýjaður) fyrir s.l. áramót við HSV og endurskoðun samstarfsins ákveðin fyrir lok þessa árs.
- Unnið er að „Sóknaráætlun f. Vestfirði“ í samvinnu Vestfirskra sveitarfélaga og samkvæmt stefnu íslenskra stjórnvalda.
- Eitt stærsta mál núverandi meirihluta var yfirtaka á Málefnum fatlaðra um síðastliðin áramót. Sérstök nefnd var skipuð til að tryggja hnökralausan og faglegan feril málsins.
- Annað stórmál núverandi bæjarstjórnar var endurskoðun sorpmála í bæjarfélaginu. Eins og í málefnum fatlaðra var skipuð sérstök nefnd til að halda utanum málaflokkinn. Haldið var áfram með vinnu fyrri meirihluta um útboð á málaflokknum, sem lauk með opnun tilboða í lok árs 2010. Í kjölfarið var ákveðið að loka endurvinnslustöðinni í Funa í Engidal og urðunarstaðarins Klofnings í Önundarfirði.
- Sorphirða og –eyðing mun taka miklum breytingum á næstu mánuðum. Nú mun hefjast flokkun sorps, endurvinnsla og endurnýting og svo urðun þess sorps sem ekki fellur undir enduvinnslu eða endurnýtingu.
- Bæjaryfirvöld halda áfram að berjast fyrir byggingu 30 rýma hjúkrunarheimilis á Ísafirði, en mjög mikil óánægja er í bæjarfélaginu með aðkomu stjórnvalda að þessu máli. Ýmist hafa bæjaryfirvöld fengið upplýsingar um að bygging heimilisins sé komin á dagskrá eða þá að það hafi verið tekið út og fært afturfyrir önnur verkefni. Bréf ráðherra frá því í maí í fyrra má túlka sem svo að þar sé krafsit samkomulags við Bolungarvík um málið. Um þetta má segja svo ekki sé djúpt tekið í árinni að þetta er ótrúleg framkoma framkvæmdavaldsins.
- Endurskoðun stendur yfir á málefnum Fasteigna Ísafjarðarbæjar, sala eigna og hafið samstarf við stjórnvöld um úrlausn á fjárhagsvanda félagsins. Verkefnið að fá skuldaábyrgð sveitarfélagsins útúr reikningum þess og létta þannig á skuldbindingum bæjarsjóðs.
- Bæjaryfirvöld hafa komið að úrvinnslu vegna atvinnumál á Flateyri, í kjölfar erfiðleika stærsta fiskvinnsluaðilans þar. Til samstarfs hefur verið stofnað við fjölda stofnana, þingmenn kjördæmisins og ríkisstjórn. Vænst er markverðra niðurstaðna af þeirri vinnu innan skamms.
- Samstarf sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum (Ísafjarðarsýslu) er í stöðugri mótun.
- Þá hefur nokkur tími farið í hagsmunagæslu sveitarfélagsins og tengdra aðila gagnvart ríkisvaldinu.
- Bæjarstjórn vinnur að setningu reglna í samvinnu við sjávarútvegsráðuneytið um Byggðakvóta, en þar hefur þess verið gætt sérstaklega að reglurnar verði almennar og einfaldar.
- Veittar hafa verið umsagnir til Alþingis um frumvörp til laga.
- Fjárhagsstaða bæjarfélagsins er erfið og mun verða mjög mikilvægt að sinna því máli af auknum þunga og erfitt að sjá aðra möguleika en enn frekari niðurskurð í framlögum til flestra málaflokka.
- Unnið er að breyttu skipulagi almenningssamgangna í þeim tilgangi að spara þar verulega fjármuni, en í dag fara um 70 millj. kr. í málaflokkinn.
Hér læt ég staðar numið að sinni, en mun vonandi bæta við þennan lista og auka, til þess að auka upplýsingagjöf til almennings um hvað er verið að vinna að á vegum bæjaryfirvalda. Þessi framanskráði listi er langt í frá tæmandi og beðist er velvirðingar á því að þar gætu etv verið mjög mikilvæg mál og málefni.
Hræðsla við að gleyma einhverju má þó ekki verða svo sterk að ekki sé unnt að koma upplýsingum sem þessum á framfæri. Það er hins vegar mjög mikilvægt að kjörnir bæjarfulltrúar fái viðbrögð frá almenningi um þau málefni sem þar er verið að vinna, sem og ábendingar um það sem ekki er verið að vinna að en er engu að síður mikilvægt að sé sinnt.
Aukið íbúalýðræði og aukið upplýsingastreymi frá stjórnkerfinu og inní það, á að geta tryggt meiri samhug um úrlausnir þær sem við öll leitum að – heildinni til hagsbóta.
Eiríkur Finnur Greipsson oddviti D-listans í Ísafjarðarbæ.