Atburðir liðins sólarhrings og þó einkum starfsmannafundur á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í hádeginu í dag, sem undirrituðum og Daníel Jakobssyni bæjarstjóra var boðið að vera á, leiddi til atburðarásar sem mig langar til að biðja ykkur um að hjálpa okkur að gera eftirminnilega og árangursríka, með því að mæta á boðaðann borgarafund í Íþróttahúsinu á Torfnesi, fimmtudaginn 7. október klukkan 21. Skorið á vini, kunningja og fjölskyldumeðlimi að sýna nú hvers við erum megnug í baráttu fyrir hagsmunum vestfirskra byggða.
Á framangreindum starfsmannafundi var sem sé skorað á okkur forsvarsmenn bæjarfélagsins að boða sem allra fyrst til borgarafundar um þá aðför sem framkvæmdavaldið hefur nú hafið gegn landsbyggðinni. Aðför sem m.a. snýst um niðurskurð í fjárveitingum til Heilbrigðisstofnunarinnar, eða sem svarar til 40% niðurskurðar á framlögum til sjúkrasviðs stofnunarinnar. Á fundinum kom m.a. fram að fari þetta eftir jafngildi þessi boðaði niðurskurður í raun eftirfarandi:
Miðað við framreiknuð fjárlög yfirstandandi árs þýðir boðuð fjárveiting 201millj.kr. niðurskurð
Framlög á fjárlögum yfirstandandi árs eru 1.020milljarðar króna.
Niðurskurðurinn er fyrst og fremst á sjúkrasviði, eða niðurskurður um 40% frá yfirstandandi ári á sjúkrasviði.
Hvernig er ef til vill unnt að mæta þessum niðurskurði á sjúkrasviði? Skoðum:
• Leggja niður bakvaktir á Skurð- og slysadeild (34,6 milljónir)
• Rannsókn (5 milljónir)
• Röntgen (6,5 milljónir)
• Fæðingardeild (7,5 milljónir)
• Bráðadeild (52 milljónir – fækkun um 50%)
En þá vantar enn 80 milljónir uppá kröfu um niðurskurð!
Hver yrðu mögulega verstu áhrifin:
• Skurðstofan lokar að mestu eða öllu leyti
• Maga- og ristilspeglanir leggjast af
• Sneiðmyndatökum verður sjálfhætt þegar fram líða stundir
• Hætt verður að gefa krabbameinslyf
• Fæðingarþjónusta hættir – allir þurfa að fara annað
• Ómskoðanir á meðgöngu hætta
• Rannsóknir dragast saman – eingöngu frá heilsugæslunni
Hjúkrunardeildir á Þingeyri og í Bolungarvík verða óþarfar vegna nægs rýmis á Bráðadeildinni
Flateyri er ekki lengur á blaði.
Samfélagsleg áhrif gætu orðið:
• Hrun í heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum
• 12 læknar og fagmenntað heilbrigðisstarfsfólk missir vinnuna eða flytur af svæðinu
• Mikil fjölgun sjúkrafluga – þrátt fyrir ótryggar samgöngur
• Fjöldi sjúklinga þarf að leita til Reykjavíkur í stað Ísafjarðar
• Öll slys sem þarfnast skurðstofu eða svæfingar verða send burt
• Krabbameinssjúklingar þurfa alltaf að fara í lyfjagjafir burt
• Ungt fólk flytur brott vegna skorts á fæðingarþjónustu
• Sjúklingar og aðstandendur flytja vegna skorts á þjónustu
• Vinnutap og fjarvera frá heimili og ástvinum
• Svæðið verður í heild sinni síður fýsilegt til búsetu
Með öðrum orðum ÞAÐ ER VERIÐ AÐ LEGGJA NIÐUR SJUKRAHÚSIÐ Á ÍSAFIRÐI.
Nú er einfaldlega nóg komið!
VÉR MÓTMÆLUM ALLIR!
Ég skora því á ykkur öll að mæta á boðaðan borgarafund í Íþróttahúsinu á Torfnesi á fimmtudaginn kemur klukkan 21. Sýnum hvers við erum megnug.
Fyrir fundinn verður lögð eftirfarandi tillaga að ályktun fundarins:
„Borgarafundur haldinn í íþróttahúsinu á Torfnesi 7. október 2010 hafnar alfarið þeim stórfellda niðurskurði á heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum sem lagður er til í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Fundurinn krefst þess að fallið verði frá boðuðum niðurskurði á sjúkrasviði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og tryggt verði að Vestfirðingar búi við sambærilegt öryggi í heilbrigðismálum og aðrir landsmenn.“
Barátturkveðja
Eiríkur Finnur Greipsson
oddviti D-listans