Stuðningur bæjarstjórnar við frumvarp

Mig langar til að vekja athygli lesenda á samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 1. júlí s.l. sem skv. sjötta lið fundargerðar 281. fundar er svohljóðandi (bein tilvitnun í fundargerð bæjarstjórnar):

 

VI. Tillaga til 281. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, um stuðning við  frumvarp til laga um uppbyggingu á Vestfjarðarvegi nr. 6o.
Til máls tóku: Eiríkur Finnur Greipsson, Albertína Elíasdóttir, Sigurður Pétursson og Jóna Benediktsdóttir.

Eiríkur Finnur Greipsson, bæjarfulltrúi D-lista og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, bæjarfulltrúi B-lista, lögðu fram svohljóðandi tillögu undir VI. lið dagskrár.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vekur athygli á framkomnu frumvarpi til laga um uppbyggingu á Vestfjarðavegi nr. 60.  Bæjarstjórn lýsir sig sammála því sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins þar sem segir:
„Brýnasta verkefnið í vegamálum á Íslandi, vegagerð um Vestfjarðaveg, er í fullkomnu uppnámi og hefur svo verið um árabil. Þetta er ekki sökum fjárskorts. Á síðustu samgönguáætlun, sem gilti frá 2007 til 2010, var verulegu fjármagni, alls um 3 milljörðum kr., veitt til framkvæmda á leiðinni Svínadalur – Flókalundur. Í tillögu til þingsályktunar um nýja samgönguáætlun (2009–2012), sem  liggur fyrir þinginu, er áhersla á vegagerð á þessu svæði, sem nær frá Þorskafirði að Þverá í Kjálkafirði.“

 

Bæjarstjórn telur að með samþykkt þessa frumvarps verði stigið bráðnauðsynlegt og óhjákvæmilegt framfaraskref í samgöngumálum á sunnaverðum Vestfjörðum, þar sem jafnframt er tekið tillit til náttúrverndarsjónarmiða. Bæjarstjórn skorar á þingheim að fylkja sér að baki þessa mikilvæga samgöngumáls.
Tillagan fylgdi útsendri dagskrá bæjarstjórnar.

Sigurður Pétursson lagði fram svohljóðandi breytingartillögur Í-lista við framkomna tillögu Eiríks Finns Greipssonar og Albertínu Elíasdóttur.
Í fyrstu málsgrein komi í stað ,,bæjarstjórn fagnar“ ,,bæjarstjórn vekur athygli á“.

Síðasta málgrein hljóði svo í stað núverandi greinar.
,,Bæjarstjórn telur að ef ekki tekst, með þeim breytingum sem tóku gildi á lögum um umhverfismat 1. janúar 2009, að koma á nútímalegum samgöngum um Austur- Barðastrandarsýslu, verði Alþingi að skoða hvort setja þurfi sérstök lög um þá framkvæmd.“

Breytingatillaga Í-lista í fyrstu málsgrein samþykkt 9-0.

Breytingatillaga Í-lista um breytta síðustu málsgrein frumtillögu Albertínu Elíasdóttur B-lista og Eiríks Finns Greipssonar D-lista fellur á jöfnum atkvæðum 4-4.

Lokaútfærsla tillögunnar samþykkt 5-2.

Sigurður Pétursson gerði grein fyrir atkvæði sínu og lagði fram eftirfarandi bókun Í-lista.
,,Verulegar samgöngubætur í Austur Barðastrandasýslu eru bráðnauðsynlegar. Það eru lög um umhverfismat einnig.  Í-listinn getur ekki samþykkt að lög um umhverfismat séu látin víkja nema fullljóst sé að aðrar leiðir séu ekki til.  Því skilyrði er ekki fullnægt í þessu máli og því getum við ekki stutt þessa tillögu.“

 

Frumvarpið er lagt fram af Einari Kristni Guðfinnssyni, Asbirni Óttarssyni, og Birni Braga Sveinssyni.

 

Flateyri 8. júlí 2010

Eiríkur Finnur Greipsson













Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.