Nýkjörin bæjarstjórn tók til starfa þann 16. júní s.l. með því að ég boðaði fund sem starfsaldursforseti nýkjörinnar bæjarstjórnar, setti hann og stýrði kosningu forseta bæjarstjórnar. Það er skondið að ég sem aldrei hef verið í bæjarstjórn en var í sveitarstjórn (hreppsnefnd Flateyrarhrepps) fyrir rétt tæpum 15 árum skuli hafa náð þeim merka áfanga að vera nýr í bæjarstjórn, vera aldursforseti og líka starfsaldursforseti! Í rúm 13 ár átti ég sæti í hreppsnefnd Flateyrarhrepps og þar af í 9 ár sem oddviti!
Setningarávarp mitt var stutt:
„Ágætu nýkjörnu bæjarfulltrúar, bæjarstjóri, bæjarritari og aðrir tilheyrendur.
Til þessa fyrsta fundar nýkjörinnar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hefur verið boðað samkvæmt bæjarmálasamþykkt. Ég vil þó spyrja hvort einhverjar athugasemdir séu við funarboðunina? ..
Nú ef svo er ekki þá höldum við áfram og ég segi þenna fyrsta bæjarstjórnarfund settann. Áður en lengra er haldið vil ég nota tækifærið og óska nýkjörnum bæjarfulltrúum innilega til hamingju með kjörið um leið og ég lýsi þeirri einlægu von minni og ósk að samstarfið hér í bæjarstjórn verði ánægjulegt og byggt á gagnkvæmu trausti okkar allra, íbúum og samfélagi okkar öllu til hagsbóta og velfarnaðar.
Öll erum við hingað komin til að hafa áhrif í þá átt að gera gott samfélag betra. Hlutverki mitt hér sem fundarboðanda og starfsaldursforseta, er að stjórna kjöri forseta bæjarstjórnar og óska ég því eftir tillögum um skipan í það virðulega embætti.“ Svo mörg voru þau orð!
Lýsti ég síðan tillögu meirihlutans um Gísla Halldór Halldórsson (D) sem forseta og greiddu 6 bæjarfulltrúar honum atkvæði sitt en 3 sátu hjá. Eða með öðrum orðum allur meirihlutinn og einn fulltrúi Í-listans greiddi honum atkvæði.
Fundurinn gekk ágætlega og var kosið í nefndir og ráð bæjarins samkvæmt bæjarmálasamþykkt. Þá var kynntur málefnasamningur B og D lista sem ég hef birt hér á síðu minni. Í bæjarráð voru kjörin Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (B), Arna Lára Jónsdóttir (Í) og ég (D).
Bæjarráðið kom síðan til síns fyrsta fundar mánudaginn 21. júní, þar sem ég var kjörinn formaður bæjarráðsins og Albertína varaformaður.
Nú fljótlega munu nefndir og ráð, taka til starfa og ef lesendur hafa áhuga á að kynna sér skipan í þær eru allar upplýsingar um það á www.isafjordur.is , en þar er einnig að finna málefnasamning B og D lista.
Í málefnasamningi meirihlutans er ákveðið að auglýsa eftir bæjarstjóra og rann sá umsóknarfrestur út í gær, þ.e. 27. júní. Ráðningar- og ráðgjafastofan Capacent annast allt utanumhald um umsóknarferlið, en 25 umsækjendur munu vera um starfið.
Að sjálfsögð urðu það mér vonbrigði að ná ekki þeim áfanga sem að var stefnt, þ.e. að ég yrði bæjarstjóri. En þar sem við sjálfstæðismenn náðum ekki þeim áfanga að fá hreinan meirihluta þá urðum við að ganga til samstarfs við annað hvort B-lista eða Í-lista. Farsælt og gott samstarf undanfarinna 12 ára með Framsókn, varð síðan forsenda þess að við sjálfstæðismenn ákváðum að ganga til meirihlutasamninga við þá að nýju, þó krafa þeirri væri sú að auglýst yrði eftir bæjarstjóra.
Er það einlæg von mín, að sú ákvörðun eigi eftir að reynast þessu bæjarfélagi vel.
Við hefjum nú sókn „Af festu til framtíðar!“
Eiríkur Finnur Greipsson
oddviti D-listans í Ísafjarðarbæ.