Kosningarnar á laugardaginn var leiddu í ljós að sem stjórnmálaafl er Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ eftir sem áður afgerandi stærsti stjórnmálaflokkur bæjarfélagsins. Við sem skipuðum framboðslista sjálfstæðismanna hljótum að túlka þessa niðurstöðu sem einlæga hvatningu kjósenda um að fráfarandi meirihluti hafi staðið sig með þeim hætti að það samstarf eigi að halda áfram. Niðurstaðan er yfirlýsing um að íbúar vilja ábyrga fjármálastjórn og varkárni í rekstri og fjárfestingum bæjarins. Málefnaskrár B og D lista eru mjög keimlíkar og og þótt nokkur áherslumunur sé í einstökum efnisatriðum má fastlega reikna með að samningur um meirihlutasamstarf verði undirritaður í næstu viku.
Næstu fjögur ár verða vonandi farsæl fyrir samfélagið okkar í Ísafjarðarbæ, fyrir alla Vestfirðinga og í reynd fyrir alla Íslendinga. Efnahagsleg óveðursský eru á himni en öll él styttir upp um síðir. Sjálfstæðismenn óska eftir samstarfi við íbúana og forsvarsmenn atvinnulífsins um stjórnun og uppbyggingu samfélagsins. Hér eru öflug fyrirtæki, hér er frábær þjónusta, hér er jákvætt, kraftmikið og hugmyndaríkt fólk, hér er magnað umhverfi og fullt af tækifærum – hér er allt sem þarf. Virkjum kraftinn til nýrra verkefna og uppbyggingar.
Nú þegar kosningar eru nýafstaðnar og kjörtímabilið rétt að hefjast vil ég nota tækifærið og þakka af heilum hug þann mikla stuðning sem framboð okkar sjálfstæðismanna hlaut á laugardag. Mig langar líka til að þakka sérstaklega öllum þeim mikla fjölda kvenna og karla sem unnu að þessum glæsilega árangri með þrotlausri vinnu og ósérhlífni. Ég er ákaflega stoltur af því að tilheyra þessum stóra hópi sjálfstæðismanna.
Við munum vinna vel fyrir Ísafjarðarbæ.
Við göngum nú af festu til framtíðar.
Eiríkur Finnur Greipsson,
oddviti sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ.