Opnun Kosningakaffihúss D-listans í Ísafjarðabæ

Í dag klukkan 17 var opnað kosningakaffihús D-listans í Ísafjarðarbæ, að Aðalstræti 27, Ísafirði.

Kaffihúsið verður opið daglega í hádeginu og frá klukkan 16 til 20. Um helgar verður opið frá klukkan 14 til 20. Lokað verður á Hvítasunnudag. Við munum á næstu dögum kynna okkar stefnumál með margvíslegum hætti. Vesturland kemur út þann 12. maí næstkomandi og þar verða frambjóðendur og helstu stefnumál okkar kynnt. Ég hvet þig kjósandi góður til að kynna þér heimasiðu okkar, koma í kaffispjall í Kosningakaffihúsið okkar og taka þátt í því starfi sem framundan. Göngum saman "Af festu til framtíðar."

 

Hér á eftir er ávarp mitt við opnun kosningakaffihússins í dag:


Ágæta sjálfstæðisfólk og kæru samherjar

Stemmningin í þjóðfélaginu nú fyrir sveitar- og bæjarstjórnarkosningar er um margt sérstök. Í höfuðborginni virðast kosningarnar t.d. farnar að snúast meira um grín en verkefnin framundan. Þá hefur lítið svigrúm verið fyrir málefni sveitastjórna og landsbyggðarinnar í umræðu sem er undirlögð af rannsóknarskýrslu, Icesave og styrkveitingum. Það er ekki auðvelt fyrir stjórnmálamenn að koma stefnu sinni og verkum á framfæri í þessu umhverfi. Það er miður, því sjaldan hefur verið meiri þörf fyrir upplýsta umræðu um okkar sameiginlegu mál en í dag. Vonandi mun heimasíða okkar sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ hjálpa kjósendum að taka upplýsta ákvörðun í kosningunum framundan. Heimasíðan er tilbúin og ég mun sýna ykkur hana hér að loknu þessu ávarpi mínu.

Það hefur verið hart sótt að Sjálfstæðisflokknum að undanförnu sem er skiljanlegt í ljósi hins margumrædda hruns. En þeir sem vilja sniðganga flokkinn vegna yfirsjóna hans á útrásartímanum ættu að hugsa sig tvisvar um. Aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið ábyrgð og raunsæi í fjármálum. Margt fór úrskeiðis á útrásartímanum en mistökin mega ekki byrgja sýn á það sem vel var gert. Í 16 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins var oftar en ekki afgangur af rekstri hins opinbera og ríkissjóður nær skuldlaus þegar hrunið dundi yfir. 

Hér í Ísafjarðarbæ búum við að því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið trausta og ábyrga fjármálastjórn. Ekkert verkefni er jafn mikilvægt til framtíðar og að ná jafnvægi á ný í rekstri bæjarins eftir áföll síðustu ára. Öll önnur mál hvíla á því að hér sé gengið hreint og ákveðið til verks. Við sjáum að 100 milljarða hallarekstur vinstri stjórnarinnar á ríkissjóði er ósjálfbær og gæti hæglega kallað yfir okkur annað hrun. Harmleikurinn í Grikklandi og íslensku útrásarbankarnir er talandi dæmi um hvað gegndarlaus skuldasöfnun og hallarekstur hafa í för með sér. Við á framboðslista Sjálfstæðisflokksins erum einhuga um að koma rekstri bæjarfélagsins aftur á öruggan kjöl fáum við til þess umboð.

Nú ríður á að okkur sjálfstæðismönnum í Ísafjarðarbæ takist að koma stefnu okkar og sögu á framfæri við kjósendur. Ég er fullviss um að skilaboð okkar muni ná til fólks ef við höldum okkur við kjarna málsins og gleymum okkur ekki í slagorðum. Það er til mikils að vinna.

Við göngum nú til kosningabaráttunnar hnarreist að vanda, söfnum liði og sækjum fram. Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ hefur sýnt það og sannað að hann er sem ein stór fjölskylda sem stendur saman. Við skulum því hefja baráttuna undir hvatningarorðum okkar að þessu sinni og sækja fram: Af festu til framtíðar!


Ávarp flutt við opnun kosningakaffihúss D-listans þann 7. maí 2010
Eirkur Finnur oddviti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ 2010.













Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.