Nokkur orð um sjávarútveg


Vestfirðir munu áfram  byggja grundvöll sinnar atvinnu og lífbjargar á sjávarútveginum. Ýmislegt má gera til að efla og styrkja aðrar greinar og er það Vestfirðingum til hagsbóta en sjávarútvegurinn verður áfram hryggsúlan í uppbyggingu annars konar vaxtasprota.  Eðli máls samkvæmt eru sjávarútvegsmál fyrirferðarmikil í umræðunni um uppbyggingu atvinnulífs hér á þessu svæði.

Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er ekki gallalaust enda aldrei verið fullkomið, langt í frá. Í umræðum um kvótakerfið verður að gera greinarmun á stjórnunarhlutanum og fiskveiðiráðgjöfinni. Heillavænlegast er að byggja framþróun sjávarútvegsins á núverandi stjórnkerfi og aðlaga það að kröfum um úrbætur þar sem því verður komið við. En við verðum að gera miklu betur í fiskveiðiráðgjöfinni og dýpka alla vísindalega umræðu.

Fram hafa komið undanfarin misseri og ár ýmsar athyglisverðar tillögur um úrbætur. Sumar raunhæfar og góðar en aðrar útópískar og vitlausar. Mestu skiptir að ná fram pólítískri samstöðu um þessa mikilvægu atvinnugrein. Að störfum er þverpólistísk nefnd sem gert er að koma fram að raunhæfar tillögur í þeim efnum. Við skulum anda með nefinu á meðan, gefa nefndinni vinnufrið og sjá hvað þar kemur fram.

Sá aðili sem er að sprengja þetta ferli allt saman upp er ríkisstjórnin með sína stórhættulegu og skaðlegu fyrningarleið, auk annarra breytinga á kerfinu sem verið er að þröngva í gegn. Það verður engin sátt um ofstækisfullar aðgerðir gegn helsta atvinnuvegi þjóðarinnar og það verður engin sátt ef ríkisvaldið ætlar að þjóðnýta nýtingarrétt útgerðarmanna.

Sátt mun skapast þegar stjórnvöld hætta tilraunum sínum í að eyðileggja grundvöllinn fyrir því að hægt verði áfram að veiða, vinna og selja fisk út landi og fari að einbeita sér að því hvernig bæta megi vísindalega þekkingu á því hvar, hvenær, hvernig og hversu mikið af fiski megi veiða við Íslandsstrendur. Vandamál þjóðarinnar er ekki hverjir eru að veiða, heldur hversu lítið má veiða.













Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.