Áherslumál - samstaða til sóknar

Sveitarstjórnarkosningarnar í vor munu snúast um það hvernig bæjaryfirvöld geta tryggt áfram skynsamlega fjármálastjórn í rekstri bæjarins og hlúð að velferðarþjónustu sveitarfélagsins án þess að hækka álögur og gjöld á heimilin og fyrirtækin í sveitarfélaginu. Það verður að spyrna við fótum gegn þeirri stefnu sem ríkisstjórnin rekur í landsmálunum, ef við ætlum ekki að fyrirgera möguleikum okkar til framtíðar. Stefna Sjálfstæðisflokksins veitir von um að okkur takist að nýta tækifærin sem framundan eru. Til þess þurfum við samstöðu til sóknar.
 
Öflugt atvinnulíf forsenda velferðar
Ísafjarðarbær er höfuðstaður Vestfjarða og því er mikilvægt að hér sé eftirsóknarvert að búa. Við verðum að leggja kapp á að nýta þau tækifæri sem hér eru til atvinnuuppbyggingar. Sjá verður til þess að sá kraftur og sú hugmyndaauðgi sem búa í einstaklingum fái notið sín. Ísafjarðarbæ ber að tryggja umgjörð fyrir atvinnuskapandi umhverfi enda er öflugt atvinnulíf grundvöllur bættra lífsgæða.
 
Traust fjármálastjórn og forgangsröðun
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar að undanförnu einkennast af auknum álögum, skattahækkunum og óútfærðum hugmyndum um breytingar. Hlutverk okkar sjálfstæðismanna í sveitarstjórn er að sporna gegn þeirri óheillaþróun og sjá til þess að álögur og gjöld á fjölskyldur og fyrirtæki í Ísafjarðarbæ hækki ekki enn frekar. Lausnin úr efnahagsþrengingunum er að auka verðmætasköpun í samfélaginu. Það verður ekki gert með hærri sköttum.
 
Mikilvægt er að viðhalda tryggri fjármálastjórn og forgangsraða verkefnum á vegum sveitarfélagsins. Hagræða þarf á skynsamlegan hátt í sátt við íbúa þannig að tryggt sé að fjármunum í sameiginlegum bæjarsjóði sé fyrst og fremst ráðstafað í þágu velferðarþjónustunnar.
 
Mótvægi gagnvart ríkisvaldinu
Gæta þarf hagsmuna byggðarlags okkar gagnvart ríkisvaldinu. Á Vestfjörðum hefur hvorki ríkt fjármálabóla né bruðl og því nær engri átt að meira verði skorið niður á Vestfjörðum vegna óráðsíu annarra.
 
Menntun og velferð barna og unglinga; starf íþróttafélaga og frjálsra félagasamtaka; menningarlíf; málefni aldraðra; samgöngu- og raforkumál, eru meðal annars hluti af þeim grunnstoðum sem bæjarstjórn þarf að berjast fyrir og styrkja.
 
Tryggjum því SAMSTÖÐU TIL SÓKNAR!













Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.