Magnea Guðmundsdóttir á ráðstefnu Slysavarnafél.Ísl.

Magnea Guðmundsdóttir á ráðstefnu hjá Slysavarnafél. Íslands:

ÁVARP.

Inngangur.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá að vera með ykkur hér í dag.  Ester Guðmundsdóttir óskaði eftir því við mig að ég flytti hér erindi, sem samanstæði af því hvernig slysið á Flateyri þann 26. október 1995, blasti við mér, hvernig er almenningur í almannavörnum og hvernig er hægt að uppfræða almenning í almannavörnum.  Ég ákvað að verða við beiðni hennar ef reynsla mín og Flateyringa gæti orðið öðrum að gagni.

Forsagan:

Það má segja að aðdragandinn hjá íbúum á Flateyri sé mjög langur.  Við höfðum búið við þessa vá svo árum skiptir, eins og margir aðrir landsmenn á snjóflóðahættusvæðum og alltaf verið viðbúin því að eitthvað gæri gerst.  Fólk á snjóflóðahættusvæðum hefur verið að heiman af og til, í skemmri og lengri tíma undanfarna vetur.  Sveitarfélagið hefur unnið að byggingu snjóflóðavarna ofan við þorpið.  Þá hefur fólk fært sig til í húsunum og eru dæmi um að fólk svæfi í sokkunum, með hlera fyrir gluggunum og jafnvel teppi utan á gardínum.  Björgnunarsveitarmenn og slysavarnafólk á Flateyri, hefur unnið mikið og gott starf.  Starfsemin hefur verið mikil og markvisst hefur verið unnið að því að þjálfa upp góðan hóp björgunarsveitarfólks.

Stofnun unglingadeildarinnar Sæunnar fyrir nokkrum árum var mikið og gott framtak björgunarsveitarinnar.  Ég sem íbúi og foreldri, dáðist að því hvernig þeir menn sem áttu þar hlut að máli störfuðu.   Hvernig þeir öguðu og ólu upp það unga fólk sem skipaði unglingasveitina.  Fyrir mér horfir það svo, að það sem fyrir unga fólkið var lagt og því kennt, voru lög.  Þau fengu að kynnast góðum aga, markvissum æfingum og var töluvert mikið lagt upp úr leit og björgun í snjó og markaðist það að sjálfsögðu vegna þess sem við búum við.  Þessi mikla og góða vinna, kom sér að sjálfsögðu vel síðarmeir, ekki bara vegna þess hóps sem hafði verið þjálfaður, heldur líka vegna þess hve vel Björgunarsveitin Sæbjörg er búin fólki sem þjálfaði sig líka við stjórnunina, með þeim eldri sem yngri.

Aðdragandinn:

Það var þann 24. október sem ég heyrði það í útvarpsfréttum kl. 19.00 að verið væri að rýma hús Ísafirði og í Hnífsdal.  Veður hafði verið leiðinlegt þann dag, en ekki samt svo að hægt væri að ímynda sér yfirvofandi hættu, því það voru fyrstu snjóar haustsins.  Ég bý sjálf á hættusvæði og við þessa frétt hrökk fjölskyldan auðvitað illilega við.  Ég var sem oddviti, staðgegnill Kristjáns Jóhannessonar sveitarstjóra þáverandi sveitarstjóra Flateyrarhrepps.  Kristján var í sumarleyfi erlendis og að auki voru tveir aðrir almannavarnanefndarmenn  fjarverandi vegna veðurs.  Ákvað ég að kalla saman þá nefndarmenn sem á staðnum voru og með leiðslögn kallaði ég inn aukamann.  Ég hafði aldrei starfað í almannavarnarnanefnd og var þar af leiðandi í erfiðri stöðu að mér fannst, vegna búsetu á skilgreindu hættusvæði.  Niðurstaða fundarins með leiðsögn Veðurstofu Íslands, snjóathugunarmanns á Ísafirði og sýslumanns Ísafjarðarsýslu, var að rýma öll hús við Ólafstún og eitt við Goðatún.

Þann 25. október var veður vont, slæm spá og Björgunarsveitin í viðbragðsstöðu.  Ég fór af skrifstofu sveitarfélagsins um kl. 15, en þá var kominn Eiríkur F. Greipsson, vanur almannavarnanefnarmaður til starfa.  Hann hafði verið veðurtepptur á Ísafirði en komst fyrir tilviljun með bíl gegnum jarðgöngin og heim.  Tók hann við stjórninni og var ákveðið að sími almannavarna skyldi tengdur heim til hans um nóttina.  Ég fór síðast milli húsa um miðnættið og hafði þá bætt verulega í snjóinn.  Um mánuði eftir slys leit ég til baka í dagbókina mína, þar stóð: “Ég hef oft séð meiri snjó, en vindátt var svolítið skrítin, mikil snjókoma úr austlægri átt, líður illa, veit ekki af hverju, með einhvern hnút í maganum.”

Flóðið:

Það var um 5 - 7 mínútur yfir fjögur að ég fékk tvær símhringingar, hverja ofan í aðra og örvæntingarfullt bank í stofugluggann, í húsi foreldra minna sem ég dvaldi í.  Þar var kominn 14 ára gamall vinur minn, sonur Eiríks Finns er ég gat um áðan.  Hann var örmagna, kaldur og hrakinn á nærklæðunum einum saman, búinn að fara langa leið til mín.  Hann segir mjög skýrt: “Bróðir minn var hjá mér í rúminu, mamma og pabbi eru týnd, snjóflóðið nær niður til Danna sveitó (Kristjáns sveitarstjóra).”  Þessi orð sögðu mér að eitthvað hryllilegt hafði gerst og þeir sem síst áttu von á því að lenda í snjóflóði og ekki voru fluttir að heiman frá sér, höfðu orðið fyrir flóði.  Ég hlúði að vini mínum og vafði hann í sæng og lét syni mína 10 og 14 ára, sem höfðu vaknað, leggjast sitt hvoru megin við hann.  Það var sem hann sofnaði strax, en eftir á vissi ég að hann var vakandi, en hann gat ekki talað og ekki hreyft sig, eftir þá þrekraun að komast til okkar.  Það var ekki fyrr en um klukkustund síðar, er fjölskylda hans fannst heil á húfi, að hann fékk máttinn aftur.

Á þessu augnabliki var efst í huga mér: “Ég ber ábyrgðina!  Ég get treyst björgunar-sveitarmönnunum.”  Ég áttaði mig líka á því að nokkrir lykilmenn í sveitinni bjuggu í mikilli fjarlægð frá snjóflóðinu, miðað við þær upplýsingar sem ég hafði fengið.  Áður en ég fór út, dróg ég djúpt andann og sagði við sjálfa mig: “Nú er bara að vera róleg.” 

Lömuð almannavaranefnd:

Þegar ég loks komst á skrifstofu almannavarna (skrifstofu Flateyrarhrepps), um hálfri klukkustund síðar, var mættur þar Steinþór Bjarni Kristjánsson varaoddviti og björgunarsveitarmaður og sá er ég hafði kallað inn í almannavarnarnefndina.  Hér var orðið ljóst að tveir af þremur almannavarnanefndarmönnum sem voru á staðnum, höfðu lent í flóðinu.  Sá þriðji er starfsmaður Orkubúsins á staðnum og þurfti hann að sinna rafmagnsmálum.  Fjórði almannavarnanefnarmaðurinn, fulltrúi Mosvallahrepps í nefndinni, var veðurtepptur í sveitinni.  Aðrir nefndarmenn voru ekki á staðnum, eins og áður sagði.  Læknir var enginn á staðnum og Bjarnheiður Ívarsdóttir hjúkrunarforstjóri, sem sæti á í nefndinni, hafði ásamt Eiríki lent í flóðinu.  Eftir stóðum við, með engan vanan mann úr almannavarnanefndinni og er mér minnisstætt  þegar Steinþór lagði til hliðar möppur almannavarna og sagði: “Við notum þetta ekki núna, þar er of seint, það er engin tími til að lesa.”




Hvernig stóð fólk sig?:

Björgunarsveitarmenn og þorpsbúar allir sem aðstoð gátu veitt, stóðu sig með afbrigðum vel.  Það má hugsa sér púsluspil, sem raðað var upp á örskömmum tíma.  Miðað við svona miklar náttúruhamfarir, þar sem einn fjórði hluti samfélagsins, verður fyrir áfallinu, er að mínu viti ekki hægt að ímynda sér hvernig hægt er að gera betur.  Auðvitað er einhvers staðar hægt að finna hnökra, þar sem hlutir og mál röðuðust ekki alveg eftir settum reglum.  En ég held að það sé ekki hægt að búast við því að allt gangi eðlilega upp við náttúruhamfarir, sem þessar.

Á stað eins og Flateyri er þetta eins og ein stór fjölskylda.  Allir misstu mikið.  Það sem var athyglisverðast, var að verða vitni að því hvernig fólk gekk til verka á þessari ögurstundu og vann sín verk á þessum fyrstu mínútum og klukkustundum áður en utanaðkomandi hjálp barst, vitandi sína nánustu ástvini grafna í snjó.  Það sem einkenndi heimamenn þennan örlagaríka morgun, var þessi Stóíska ró, styrkur og öryggi í vinnubrögðum.  Björgunarsveitin kom upp stjórnstöð í húsi í jaðri flóðsins.  Þaðan var björgunaraðgerðum stjórnað.  Konur og menn opnuðu fjöldahjálparstöð og mötuneyti í matsal Fiskvinnslunnar Kambs hf.  Meira að segja blessuð börnin fengu einhvern óskiljanlegan styrk og er mér minnisstæð skelfingin í augum sona minna er ég yfirgaf þá um morgunin, er þeir lágu saman sitt hvoru megin við vin okkar, án þess að segja orð.

Það má kannski segja að Flateyringar hafi verið á einhvern hátt undir þetta búnir, því þeir sem ekki hafi búið á áður þekktu hættusvæði, hafa oft á tíðum, margir hverjir legið andvaka vegna okkar sem þar búum.  Vegna þess sem við höfum þannig búið lengi við og þær hörmungar sem dundu yfir nágranna okkar í Súðavík, þá held ég að ekkert okkar hafi trúað því að slíkt myndi gerast og það á sama árinu.  Það er aldrei hægt að vera svo undirbúinn náttúruhamförum að ekki sé hægt að búast við að eitthvað fari úrskeiðis.  Það getur svo farið að lykilmenn í almannavörnum, björgunarsveitum og almenningur er gegnir lykilhlutverkum, lendi sjálft í náttúruhamförum.  Þá getur allt lamast. 

Í óláninu vorum við þó að hluta til lánsöm, t.d. að eftir voru menn sem gátu sinnt nauðsynlegu björgunarstarfi, en mér er þó minnisstætt hve erfiðlega gekk að manna skip, því þegar til skipstjórnarmanna átti að taka, þá höfðu tveir skipstjórar lent í flóðinu og aðrir er höfðu réttindi voru að hjálpa til við að leita að fólki.

Við urðum úr vegasambandi og þurfti að fara sjóleiðina til þess að fá utanaðkomandi hjálp.  Það tókst þó á tilsettum tíma að manna skip.  Það var liðlega fjórum tímum eftir að flóðið fellur, sem að hjálp barst að, sjóleiðina frá gamalli trébryggju innar í firðinum (Holti).  Mitt álit á því hvernig almenningur á Flateyri stóð sig, á þessari stundu, er að hann gat ekki gert betur við þessar aðstæður.

Er fræðsla möguleg?:

Hvað getum við gert til að uppfræða almenning í almannavörnum?  Það er að mínu viti margt og þá á ég ekki bara við varðandi snjóflóð.  Við búum líka við hættu af öðrum náttúruhamförum, svo sem jarðskrið, jarðskjálfta, eldgos og sjóflóð.

Ég talaði í upphafi um starf björgunarsveitarinnar Sæbjargar með unglingadeildina á Flateyri.  Það er áreiðanlega eitt það mikilvægasta að móta björgunarfólk strax í æsku.  Þetta er sjálfsagt mismunandi eftir stöðum, hversu öflugt starf er unnið, en eitt af því sem ætti að vera markmið allstaðar, er að virkja og efla unglingastarf í björgunarsveitunum.  Þetta segi ég því ég veit, að eftir því sem fólk byrjar fyrr, því betri starfskraftar verður það síðar meir.  Auk þessa er slíkt starf ákaflega þroskandi og uppbyggjandi fyrir æskufólkið okkar. 

Þetta þarf ég auðvitað ekki að nefna hér, því þetta vitið þið öll.  Það hlýtur þó að vera ánægjulegt að geta stutt slíka þekkingu og vitund, sem þið hafið á þessum málum, sterkum reynsluheimi annarra.  Það er einnig þannig að ekki njóta öll ungmenni þess að starfa í unglingadeildum björgunarsveita, nú og sum hver vilja það ekki.  Hugleiða þarf með hvaða hætti er unnt að ná til enn fleiri unglinga.

Það sem mér kemur í huga við hugleiðingar um hvernig uppfræða megi almenning í almannavörnum, þá ætti það að vera gert innan veggja skólanna, sem fram færi fræðsla fyrir unglinga.  Ég er hér að ræða um fræðslu, strax á grunnskólastigi, tengt þeim greinum sem þegar eru kenndar í skólum, svo sem félagsfræði, samfélagsfræði og eðlisfræði.  Þá og ekki síður er slík fræðsla nauðsynleg á framhaldsskólastigi, hvort heldur er í formi námskeiða, eða sem sérstök námsgrein.  Því eins og áður sagði þá gerist slíkt, að lykilmenn í stjórnun björgunaraðgerða við náttúrurhamfarir forfallast og þá er nauðsynlegt að aðrir, sem kunna til verka geti tekið við.

Sem sveitarstjórnarmaður fann mig vanmáttuga á þessari stundu og hefur mér verið ofarlega í huga eftir snjóflóðið, að nauðsynlegt sé að uppfræða sveitarstjórnarmenn í almannavörnum.  Ég geri mér ekki fullkomna grein fyrir því hversu almennt fulltrúar í almannavarnanefndum eru vel að sér varðandi störf sín.  Þó reikna ég með því að starfandi almannavarnanefndarmenn séu vel að sér, en almenningur sem taka þarf til starfa við náttúruhamfarir, gerir bara sitt besta og ekki er unnt að fara fram á meira. 

Með aukinni fræðslu og þekkingu almennings gerum við alla betur undir það búna að takast á við slík verkefni.  Við verðum að ígrunda vel hvernig og með hvaða markvissa hætti við getum uppfrætt og kennt almenningi.  Það er nauðsynlegt að mínu áliti og stutt fenginni reynslu.

Ég hef í sjálfu sér ekki neina töfralausn á þessu máli, en með forystu félagasamtaka á borð við Slysavarnafélag Íslands er aukin fræðsla til almennings möguleg, hvort heldur er með stuðningi við fræðslu innan skólakerfisins eða með beinum hætti.  Hér bera stjórnvöld og sveitarfélögin í landinu einnig mikla ábyrgð, sem nýta þarf þessu máli til framdráttar.

Við tökum ekki úr botnlangann nema með því að leita helst til læknis og þá skurðlæknis, sem sérhæft hefur sig í slíkum aðgerðum.  Við skulum því nýta okkur þekkingu og reynslu annarra á sviði almannavarna.  Íslendingar búa við það að þurfa að vera á varðbergi og þess vegna þurfa allir, sem það geta, að koma til verka þegar vá dynur yfir.  Með auknum forvörnum, fræðslu og rannsóknum getum við minnkað þá hættu sem við búum við.


Þakkarorð:

Það var stórkostleg tilfinning fyrir okkur þorpsbúa, þegar hjálpin barst að.  Sú tilfinning er ólýsanleg, að sjá þegar þyrlurnar á einhvern óskiljanlegan hátt komu niður úr sortanum.  Og við að sjá þyrlurnar og allt þetta rauðklædda fólk ganga á land, í allri sorginni og örvæntingunni, grétu margir af gleði.  Þessi upplifun veitti okkur von og öryggi.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka fyrir hönd okkar Flateyringa, Slysavarnafélagi Íslands og björgunarsveitunum er tóku þátt í leitar- og hjálparstarfi, fyrir alla þá miklu hjálp er okkur var veitt í haust. 

Niðurlag:

Náttúruöflin hafa farið um okkur Íslendinga ómjúkum höndum oft á tíðum.  Við verðum að læra að lifa með náttúruöflunum og fara varlega.  Af fenginni reynslu getum við leitast við, að koma í veg fyrir frekari slys á borð við það, sem gerðist á Vestfjörðum á síðastliðnu ári.  Með því að búa í sátt við náttúruöflin, getum við það þó einungis með því að fara gætilega.  Búa verður svo um þau samfélög, sem við snjóflóðahættu eða aðra vá búa, að þeim stafi ekki hætta af.  Síðast en ekki hvað síst, verður að nýta þá þekkingu og reynslu sem við höfum öðlast, til þess að koma í veg fyrir frekari skipulagsslys.  Við verðum að viðurkenna vandann, vinna skipulega og örugglega að því markmiði tryggja öryggi okkar betur en gert hefur verið.  Við getum gert betur og með hjálp fólks eins og ykkar, munum við ná því marki.

Við búum í harðbýlu landi og hættir til að vera of fljót að gleyma - það megum við hins vegar ekki gera.  Við eigum að bera virðingu fyrir náttúruöflunum - með því getum við lifað óhrædd, í sátt og sambýli við þau.















Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.