Minningarbrot úr flóðinu mikla: Eiríkur H Sigurgeirsson

Nokkur minningar brot frá Snjóflóðinu á Flateyri.

Að beiðni vinar míns Eiríks Finns ákveð ég láta til leiðast og skrifa nokkur minningarbrot frá þeim skelfinlega degi 26.október 1995. Ætla ég einkum að rifja upp upphaf á flutningi björgunarfólks frá Holti til Flateyrar. Mér ferst margt betur úr hendi en skriftir og vonast ég til að viljinn verði tekinn fyrir verkið.


Flateyri 26.október 1995

Rétt um kl.04  kom Róbert Hallbjörnsson inn í herbergið til mín, en við bjuggum saman á efri hæðinn hjá Mæju blessaðri Jóhanns, og sagði að hring hefði verið og tilkynnt að snjóflóð væri fallið á Flateyri en enginn vissi hversu alvarlega það var. Við drifum okkur í föt og hentumst út í sortan en mjög hvasst var og  blindbylur. Okkur kom saman um að halda upp Eyrarveginn flóðið hlyti að vera á þeim slóðum þar sem hættan var talin mest eða uppi í bænum  Ekki gat okkur dottið til hugar að við værum staddir á jaðri flóðsins. Ferðin uppeftir sóttist hægt vegna ófærðar og blindbyls, við paufuðumst áfram þar til við komum að húsin Guðmundar Kristjánssonar og Beggu en þar fórum við fyrst að fá  tilfinningu fyrir hvað  raunverulega hafði gerst og hvað það hlaut að vera miklu hræðilegra en okkur gat nokkurn tíman órað fyrir.
Við börðumst  þöglir niður með kanti flóðsins, við heyrðum mann berja inna úr húsi og kalla á hjálp og héldum við að sjálfsögðu þangað en þetta reyndist vera Steini kokkur sem var lokaður inni í húsinu sínu. Þegar við vorum að komast að húsinu sáum við að Eiríkur Finnur og Gulla voru að klöngrast út úr brakinu af sínu húsi, við öskruðum í Steina að við vissum af honum og hvort það væri allt í lagi með hann og við kæmum fljótlega að hjálpa honum. Við fórum á móts við Eirík og Gullu en til þeirra var kominn Einar Guðbjarts og hjálpuðumst við að við að koma þeim heiðurshjónum í hús á elliheimilinu við Eyrarveg. Þar tók á móti okkur dóttir Guðmundar Kristjánssona og báðum við hana að hafa samband við lögregluna á Ísafirði og láta send yfir menn og allar þær skóflur sem að tiltækar væru. Þegar þessu var lokið var búið að hjálpa Steina og hans frú út úr húsinu.
Við ákváðum að halda til Hjartar bakar en við höfðum frétt að þar væru einhverjir komnir og vildum við hafa samband við þá til að koma skipulagi á björgunaraðgerðir. Ekki man ég lengur hverjir voru þar samankomir en mér er enn í fersku minn röggsemi Jóns Svanbergs á þessari stundu og hef ég oft dáðst af þeim ákvörðunum sem hann tók þarna á þessu fyrstu mínútum, þær geta ekki hafa verið einfaldar né léttar að taka. Hann sagði að það væru til ákveðið marga snjóflóðaýlur og fleiri færu ekki inn á svæðið fyrr en eitthvað væri vitað um aðstæður svo ákvað hann að Sævar Pétursson færi á snjósleða til að kanna aðstæður og koma síðan og skýra frá ástandinu. Eftir að þessar fyrstu ákvarðanir voru teknar var farið að skipuleggja næstu skref, við urðum allir sammála um að ekki væri vit í að hætta björgunarfólki með því flytja það á bílum til Flateyrar. Það varð því að þegjandi samkomulag að reyna að komast á Æsunni inn að Holti og flytja björgunarfólk sjóleiðina til Flateyrar.
Við Róbert fórum rakleitt um borð til að gera bátinn kláran til þessa verkefnis mig minnir að með okkur hafi farið Bjarni Harðar og Dáni. Róbert setti vélina í gang en ekki hafði tekist að finna stýrimann Æsunnar, Rúnar Garðarsson skipstjóri var staddur í Reykjavík. Ég sagðist skyldi freista þess að stjórna skipinu ef Dáni gæti sagt mér til þar sem ég var með öllu ókunnur staðháttum í Holti og var það auðsótt mál.
Í þá mund er við vorum að leggja af stað í fyrstu ferðina kom stýrimaðurinn og tók við stjórn skipsins og er ekki ofsagt að hann hafi leyst það verk af hendi með algjörri snilld við sérlega erfiðar aðstæður. Aðstæður sem ekki voru fýsilegar fyrir ókunnugan, blindbylur og talsverður vindur auk náttmyrkurs, en eins og þeir vita sem til þekkja er ekki langt upp í fjöru frá bryggjunni í Holti.
Þegar við nálguðumst Holt var farið að rýna út í sortann til að reyna að sjá bryggjuna en án árangurs og má segja að lagst hafi verið að henni í fyrstu ferðinni eftir radar en eftir það höfðum við plotter til að styðjast við. Á móti okkur tók Bjössi, að mig minnir bóndi á Þórustöðum, er óhætt að segja að hann hafi unnið frábært starf við að stjórna aðgerðum í Holti við mjög erfiðar aðstæður þar sem að bryggjan á staðnum var á engan hátt í standi til að leggja að skipi. Þegar að bryggjunni kom settum við upp spring til að keyra bátinn að en sáum fljótlega að það gæti ekki gengið vegna lélegs ástands bryggjunnar sem virtist ætla að liðast í sundur við að báturinn keyrði sig að. Við ákváðum í skyndingu að það væri of hættulegt að senda menn út á bryggjuna meðan að við keyrðum í springinn og var sú ákvörðun tekin að þegar við kæmum að bryggjunni skyldu ,að mig minnir, þrír hlaupa niður bryggjuna og stökkva um borð. Guð minn almáttugur hvað ég var viss um að okkur gæti aldrei tekist þetta við þessar aðstæður án þess að eitthvað hræðilegt myndi gerast en það var ekki um neitt að velja þetta varð að gera. Við lögðumst að og fyrstu mennirnir komu hlaupandi og stukku um borð. Einn þeirra var sonur Steina Guðbjartar, kallaður  Hemmi minnir mig,  hann var með leitarhund með sér en við að ná þeim um borð vildi ekki betur til en svo að við vorum rétt búnir að tapa hundinum í sjóinn. Guð minn góður ég óttaðist að þetta væri aðeins forsmekkurinn af því sem að ætti eftir að gerast í þessum flutningum.
Eftir því sem ég best man voru fyrstir um borð Hemmi Þorsteins með sinn leitarhund, Þorsteinn læknir og Einar að mig minnir Ingvarsson rafvirki. Þegar okkur hafði tekist að ná þeim um borð ákváðum við að ekki væri vit í öðru en að fara með þessa björgunarmenn til Flateyrir þar sem að mikilvægt væri að koma lækninum til starfa ásamt því að leitathundurinn gæti hafið leitina, auk þess var mikilvægt að fá Einar á svæðið þar sem að hann hafði tekið þátt í aðgerðum á Súðavík og bjó yfir dýmætri reynslu. Ferðin til Flateyrar gekk vel og var haldið rakleitt til baka og fleiri björgunarmenn sóttir og gekk þetta svona allan daginn fram og til baka undir öruggri stjórn stýrimannsins og Bjössa inni í Holti.

Ég hef oft leitt að því hugann að þegar mikið liggur við og maður skynjar smæð sína hvað mest  er eins og að einhver óskiljanleg vernd, kraftur og æðruleysi sé sent manni til handa til að ráða framm úr þeim verkefnum sem að fyrir liggja.
Það var svo sannalega þannig þennan dag hjá okkur á Æsunni því að við komumst í gegnum þessa flutninga án allra óhappa og slysa og hlotnaðist að skila öllum sem að þurftu að komast til sinna hjálparstarfa heilum á leiðarenda, sem var við þessar aðstæður langt frá því að vera sjálfsagður hlutur.
Í hvert sinn sem að við komum á Flateyri bárust okkur fréttir af gangi björgunarstarfa á svæðinu, nokkrar mjög gleðilegar en því miður alltof margar sem voru sláandi, þar sem að fólk á öllum aldri hafði verið burtu kallað oft að manni fannst löngu fyrir tímann. Á svona stundum er gott að eiga þá bjargföstu trú sem ég hef að hver einstaklingur komi til jarðvistar til að ljúka verkefnum sem að hann hefur sjálfur fyrir fram ákveðið að leysa af hendi á veginum að auknum þroska andans.
Þennan dag þurfti ég svo sannarlega að grípa alltof oft til þessarar skoðunar minnar þegar fréttir af andlátum vina og samstarfsmann bárust hvert af annarri, að þeir hafi lokið því sem þeir ætluðu að gera og verið kallaðir til annarra starfa.
Það er svo skrítið þegar að svona hroðalegir atburðir eiga sér stað að það er eins og að einhver huggandi og styrkjandi orka leggist yfir svæðið sem hörmungarnar dynja yfir.
Þetta upplifði ég mjög sterkt þennan dag á Flateyri, fólk sagði fátt bar harm sinn í hljóð og gekk óhikað til þeirra starfa sem að fyrir lágu, að gera það besta úr hlutunum úr því sem komið var. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri um þennan átakanlega dag í lífi okkar allra sem stödd vorum á Flateyri, enda var ég minnst á Eyrinni og margir færari en ég til að koma því á blað sem þar gerðist.

Vil ég færa Flateyringum þakkir fyrir góð kynn þau ár sem ég var þar og minnist ég margra vina minna þar með einstökum hlýhug.

Skrifað í Litháen 18.des.2004

Eiríkur H Sigurgeirsson.














Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.