Minningarbrot frá Smára Snæ Eiríkssyni

Smári Snær Eiríksson f: 13/08/88
Endurminning úr barnæsku rituð í nóvember 2003.

Dagur í lífi mínu


26. október 1995. Ég vaknaði kl 4 um nóttina í lítilli holu. Ég hélt ég væri uppi á háalofti. Mér var ískalt. Ég vissi ekki hvar sængin mín var. Eftir smástund kallaði Grétar bróðir á mig og ég fór upp úr holunni og spurði hvað hafi gerst? Hann sagði að það hafi fallið snjóflóð á húsið og hann sagði mér að vera kjurr, og hann ætlaði að ná í hjálp. Ég sagðist vilja koma með honum en hann sagði við mig grátandi að ég ætti að vera kyrr og fór.

Ég fór aftur niður í holuna, ég heyrði alltaf einhvern hávaða og ég vissi hvað þetta var. Þetta var lítið fótboltaspil sem gekk á batteríum og gerði alltaf svo mikinn hávaða. Ég byrjaði að þreifa um í holunni og fann spilið og slökkti á því.

Eftir tvo klukkutíma heyrði ég í kalli frá Guðjóni (Guðmundssyni), ég kallaði á móti og eftir smástund kom maður sem heitir Einar (Guðbjartsson) og kallaði á mig og spurði hvort að það væri ekki í lagi með mig. Gróf hann mig út um glugga sem hann hafði brotið til að komast til mín og þegar ég kom út úr húsinu skar ég mig á glerbroti, en ég fann ekki fyrir því. Einar fór með mig á elliheimilið og þar voru mamma og pabbi. Ég hljóp upp stigann á elliheimilinu og tók utan um þau bæði.

Mamma spurði mig hvar Grétar væri og ég sagði að hann hefði farið til Magneu (Guðmundsdóttur) að ná í hjálp. Mamma trúði mér ekki fyrst en síðan hringdi hún í Magneu og þá var Grétar þar.

Eftir svona klukkutíma kom bíll og náði í okkur og fór með okkur út í mötuneyti (Fiskvinnslunnar Kambs). Þar vorum við alveg til klukkan átta um kvöldið og fórum þá með varðskipinu til Reykjavíkur.

Þessi dagur var versti dagur lífs míns.













Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.