Endurminningar mÝnar um snjˇflˇ­i­.

Endurminningar um atburði snjóflóðsins á Flateyri 26. október 1995

 

 

 

 

Sá texti sem hér fer á eftir er að stofni til byggður á minningarbrotum sem ég tók saman 1. desember 1995.  Var ég þá í vinnu minni hjá Fjórðungssambandinu á Ísafirði.  Ég var þá langt frá því búinn að jafna mig á atburðunum, og saknaði fjölskyldu minnar óskaplega.  Ég var reyndar ekki viss um hvort ég hafði stuðning minna yfirmanna til þess að vera frá vinnu, jafnvel þó formaðurinn hafi sagt að ég ætti að taka mér þann tíma sem ég þyrfti, þá sagði hann um leið að auðvitað væri nauðsynlegt fyrir mig að fara að vinna sem fyrst og það var nóg til þess að ég fékk samviskubit.  Bæði formaður og aðrir stjórnarmenn sambandsins reyndust mér hins vegar ákaflega vel í mínum erfiðleikum og sýndu mikinn skilning á tíðum ferðum mínum til Reykjavíkur, á meðan fjölskyldan dvaldi þar, eða allt til loka maímánaðar 1996.  Fór ég að vinna í Reykjavík, upp úr 16. nóvember og var kominn vestur á Ísafjörð í lok mánaðarins. 

Nú þrem árum eftir atburðina, þá er ég þess full viss að það var alls ekki rétt af minni hálfu að fara að vinna strax.  Gulla, strákarnir og ég sjálfur þurftum einfaldlega hvort á öðru að halda.  Að vinna sig út úr slíkum atburðum, byggja upp ný framtíðarplön og yfirvinna sorgina – það er mikil nákvæmis- og nærgætnivinna, sem við erum enn að vinna úr.  En auðvitað hlýtur þessi fjarvera líka að hafa haft kosti í för með sér, en vonandi mun ég komast að einhverri niðurstöðu um þessi mál síðar á lífsleiðinni.  

Ef eitthvað varð mér til bjargar varðandi dvöl mína á Ísafirði, frá konu og sonum, þá var það að ég fékk að dveljast þar, hjá einstöku heiðursfólki, Kristjáni Haraldssyni, konu hans Halldóru Magnúsdóttur og dóttur þeirra Þórunni Örnu – alveg einstök stúlka, sem með framkomu sinni hvað eftir annað, snart eitthvað innra með mér af ótrúlegri hjartahlýju og gaf mér styrk.  Einnig má nefna til leiks ýmsa fleiri, svo sem heiðurshjónin Bergmann og Öddu, Ólaf sýslumann og Þórdísi, Ólaf og Áslaugu á Hótelinu, að ógleymdu samstarfsfólkinu á Skólaskrifstofunni, Pétri, Jóhönnu, Ingu Báru, Huldu og Kötu, já og Elsu atvinnuráðgjafa. 

Það sem skiptir mestu máli nú er auðvitað að hjálpa sonum okkar að komst út úr þessum atburðum.  Ég veit að þeir eiga enn eftir að ná sér – allir þrír, við hjónin reyndar líka, en allt er vonandi á góðri og réttri leið.  Við verðum aldrei söm, en slíkir atburðir hljóta að þroska okkur öll, ef rétt er á málum haldið. 

Að lokum við ég leggja áherslu á að þessi texti er alls ekki hugsaður, sem nákvæm skráning á atburðum, heldur örlítil frásögn byggð á minningum mínum af þessum áhrifamiklu og ógnvænlegu atburðum.

 

 


Minningarbrot þessi eru helguð minningu þeirra 20 sem fórust í snjóflóðinu 26. október 1995, á Flateyri.

 

Miðvikudagur 25. október 1995. 

 

Magnea oddviti hringdi í mig í vinnuna á Ísafirði þennan morgun og við töluðum um rýmingu húsa og störf almannavarnanefndar á Flateyri, en ég hafði átt sæti í þeirri nefnd um all langt skeið.  Kristján sveitarstjóri var í sumarleyfi á Florída og Magnea því hæstráðandi hjá Flateyrarhreppi, en við skulum hafa í huga að hún hafði aðeins verið oddviti sveitarfélagsins frá því um miðjan júlí, en þá sagði ég af mér í hreppsnefndinni, vegna hins nýja starfs míns, sem framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga.  Oft hefur mér orðið hugsað til þess hversu vel og yfirvegað hún tók á öllum málum á snjóflóðadaginn og í kjölfar þeirra atburða, en um leið er mér ákaflega mikill leiði í hug, þegar ég hugsa til samferðamanna hennar, sem jafnvel enn í dag skilja ekki með neinu móti djúpstæð áhrif þessara atburða, né nauðsyn aðhlynningar að samfélaginu á Flateyri og úrvinnslu fórnarlamba snjóflóðsins.

 

Ég hafði brotist til Ísafjarðar á bílnum okkar á mánudeginum, því við vorum nokkrir sem fengum að fara saman gegnum jarðgöngin í kaffinu klukkan hálf fjögur, Hlynur Sigtryggsson og Vigfús Geirdal voru þar á meðal.  Vinir mínir þau Kristján Haraldsson og Dodda skutu yfir mig skjólshúsi og þar settist ég að með rakdótið mitt og föt til skiptanna.  Kvöldið áður höfðum við einmitt rætt um snjóflóðahættu á Flateyri og Þórunn Arna dóttir þeirra hafi einmitt spurt mig hvort okkar hús væri í hættu, en ég svaraði að það væri langt frá því að vera á hættusvæði!  Já, tilviljanirnar geta verið skrýtnar.  Þórunn minntist þessarar stundar síðar, þegar við sátum saman að kvöldlagi yfir sjónvarpinu á Seljalandsveginum.

 

Gulla hringdi úr vinnunni á símanum og var gráti næst, á tólfta tímanum þennan dag og bað mig að koma strax heim, í gegnum jarðgöngin vegna þess að spáin væri svo slæm, enginn sem vanur væri störfum í almannavarnanefnd væri á staðnum, Danni í USA og Steinar í Reykjavík, Kristján Einars á fullu í störfum fyrir OV og Bjarnheiður á vakt enda enginn læknir.  Magnea oddviti og Dúi varaoddviti voru samt búin að standa sig mjög vel.  Var ekki allt í lagi með konuna mína – það var bara smá hret.

 

Mér fannst reyndar ótrúleg viðkvæmni, jafnvel múgsefjun sem farin var af stað strax í byrjun vetrar, og í raun bara unnt að skýra þetta með öllu umtalinu sem varð í kringum snjóflóðið sem féll á Súðavík í janúar s.l. Ég sagði Gullu að hún hlyti að skilja að það væri engan veginn unnt að komast til Flateyrar í þessu vitlausa veðri, en þá brast hún í grát og sagði að ég bara yrði og ég hlyti að komast í gegnum göngin til Flateyrar – enda hafði ég komist til Ísafjarðar þá leiðina.  Eitthvað, eitthvað vakti óróa hjá mér eftir þetta snubbótta viðtal,  já það hefur nefnilega ekki verið nógu ríkjandi í mínu fari að drífa í hlutum sem snúa að mínum nánustu. 

 

Haldið til Flateyrar.

Ég hringdi nánast strax að afloknu samtalinu við Gullu, í Kristján Haralds vin minn í Orkubúinu og hann tjáði mér að Sigþór Gunnarsson vörubílstjóri væri annað hvort nýfarinn eða um það bil að fara til baka til Þingeyrar, með varahluti í dieselvélar OV á Þingeyri og Flateyri.  Gaf hann mér upp bílasíma Sigþórs og ég náði honum strax, þar sem hann sagðist fara ekki síðar en eftir 10 mínútur og lofaði hann mér fari ef ég gæti komið strax niður í kyndistöð OV á Ísafirði.  Var þetta nú samt ekki full langt gengið hjá mér að hlaupa strax til og rjúka heim í fyrsta hreti haustsins, ég sem ætlaði að vera meira og minna að heiman um veturinn í vinnunni á Ísafirði, enda hafði ég vissu fyrir því að ekki yrði unnt að fara göngin daglega í vinnuna fyrr en að ári liðnu.  Auðvitað var þetta óþarfa viðkvæmni, en mikið er ég í dag þakklátur Gullu og forsjóninni fyrir að ég skyldi fara heim!

 

Ég sópaði gögnum, ferðatölvunni og tölvudisklingum niður í plastpoka klæddi mig í úlpuna og dreif mig á bílnum niður í orkustöð.  Hafði ég því ekki tíma til þess að ná í rakdótið og fötin mín heima hjá Kristjáni og Doddu - kom það sér vel síðar, ásamt því að þurfa að skilja bílinn eftir niður á orkustöðinni!

 

Eftir að Sigþór hafði náð í pakka niður í verslun olíufélags útvegsmanna sem hann átti að taka með sér, var haldið af stað til Önundarfjarðar klukkan rétt rúmlega 12 á hádegi.  Ferðin sóttist seint inn Tungudalinn, vegna mikils skafbyls en að lokum náðum við að göngunum.  Þegar í gegnum þau var komið beið þar Páll Önundarson á sínum vörubíl, eftir varahlutum sem fara áttu út á Flateyri.  Ég fékk síðan far með honum til Flateyrar.  Vakti furðu mína að sjá (?) hversu lítill snjór var á ströndinni, en mat okkar var að hún væri fær fólksbílum með 4X4 drif, hins vegar var augljóslega búin að vera mikil ísing á raflínum. 

 

Tekin vaktin hjá Almannavarnarnefnd Flateyrarhrepps.

Ég fékk mér snarl þegar heim var komið og fór síðan á skrifstofu Flateyrarhrepps (með viðkomu á P&S hjá konunni) til þátttöku í störfum almannavarnanefndar.  Eftir að Magnea og Lilja skrifstofustúlka höfðu sett mig inn í hlutina og stöðuna fóru þær heim og ég stóð vaktina til rúmlega hálf fimm, stillti síma almannavarnanefndarinnar heim til mín á Unnarstíginn og sagðist taka næturvaktina.  Allt var gjörsamlega samkvæmt bókinni, að mínu mati.  Búið að rýma þau hús sem alltaf voru rýmd við slíkar aðstæður.  Skilaboðin frá Veðurstofu og samtöl við sýslumann og aðra voru með hefðbundnum hætti.

 

Um kvöldið hringdi Magnea og hafði áhyggjur af því að ekki væri búið að rýma Hjallaveg 9, en að mínu áliti var engin ástæða til þess að hafa af því áhyggjur miðað við það snjómagn sem ég hafði gert mér hugmynd um að væri fallið og þær venjur sem við höfðum starfað eftir í almannavarnanefndinni!?  Var því ákveðið að aðhafast ekkert í málinu.  Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður hringdi um miðnættið og gerði ég honum grein fyrir ástandinu.  Reyndar man ég ekki nú hvort ég sagði honum frá því að við værum ekki búin að rýma Hjallaveg 9, það skiptir reyndar ekki miklu nú, en….

 

Fjölskyldan fór síðan að sofa.  Báðum við hjónin Grétar Örn um það að sofa með Smára Snæ bróður sínum í herbergi Auðunns - sem þeir hafa reyndar áður verið beðnir um að gera þegar veður hafa verið slæm.

 

Óveðrið dundi útifyrir, en okkur tókst að festa svefn fljótlega.
Fimmtudagur 26. október 1995.

 

Snjóflóð fellur á húsið kl. 03.48, miðað við tvær klukkur sem fundust á heimili okkar eftir flóðið. 

 

Ég vaknaði upp við hávaða, síðan titring og enn meiri hávaða.  Ég rís upp á olnbogann og stari út í myrkrið.  Það lýstur þeirri hugsun niður í huga mér, um leið og ég geri mér grein fyrir hávaðanum, að það sé snjóflóð að falla og svo einkennilegt sem það kann að virðast, þá var ég viss um það frá fyrstu sekúndu að þetta væri úr Skollahvilftinni!  Það er einkennilegt hversu heilinn, getur starfað fljótt á stundum sem þessum.  Það er stundum sagt að minningar lífshlaups manna renni framhjá hugskoti þeirra þegar þeir eru að kveðja þennan heim, ég held að þetta hafi verið svipað.  Þakið rifnaði síðan upp og ég sá út í himininn, greip utan um hálsinn á Gullu og krækti með hægri fætinum utan um fætur hennar.  Allt varð svart og skæðadrífa skápahurða og spýtnabraks flaut yfir okkur, síðan varð ég var við snjó og við flutum með flóðinu, en Gulla snerist undir mig.  Um leið og mér fannst við vera að stöðvast hreyfði ég hægri hönd mína til þess að ýta frá andliti okkar því sem mér fannst vera þar.

 

Gulla var á öll á kafi í snjó, þar með talið andlitið og ég heyrði hljóð frá henni eins og hún væri að kafna.  Hún hafði ekki vaknað fyrr en þarna þegar hún náði varla andanum vegna þess að öll vit hennar fylltust af snjó.  Ég var svo heppinn að snjórinn náði mér aðeins upp fyrir geirvörtur, en vinstri höndin og öxlin var í snjónum og lá vinstri höndin undir hálsinn á Gullu.  Ég náði að sópa með hægri hendinni frá andliti hennar, þannig að hún gæti andað.  Hún spurði hvað væri að ske, og ég reyndi að segja henni að það hafi lent snjóflóð á húsinu okkar.  Hún byrjaði nánast strax að hugsa um strákana okkar, hvar þeir væru og hvernig væri komið fyrir þeim.  Bað góðan guð að varðveita þá  - ég grét og bað í hljóði. 

 

Mig minnir að ég hafi sagt, elskan mín við verðum að taka því sem að höndum ber, en við skulum þakka fyrir að við erum heil á húfi, en kannski hugsaði ég það bara.  Auðvitað var ég sjálfur fullur angistar í tilhugsuninni um afdrif sona okkar og allra hinna sem örugglega höfðu lent í þessu flóði.  Ég spurði hana hvort hún væri eitthvað slösuð – nei hún var ekkert slösuð en gat sig hvergi hreyft.  Eftir smá stund spurði hún mig hvort við ættum ekki að fara sameiginlega með faðirvorið og biðjast fyrir.  Gerðum við það og róuðumst ótrúlega mikið við það, en tárin runnu á milli.... 

 

Snjórinn byrjaði að bráðna á líkama mínum strax.  Í fyrstu fannst mér það eiginlega ekki vandamál, raunar hugsaði ég nánast ekkert um það, þó að ég væri aðeins á nærbuxunum einum fata.  En smátt og smátt bráðnaði meiri snjór og droparnir tóku að leka eftir líkamanum.  Það sem best var þó, ef hægt var að tala um eitthvað sem var best, var að líkamar okkar hjónanna voru samanklesstir að hluta til.

 

Eftir að við höfðum farið með faðirvorið, reyndum við að talast við, en Gulla taldi sig sjá út um rifu á rústunum, en við vorum gersamlega föst upp á maga og lá ég að hluta til ofan á Gullu.  Ég hafði ekki mikla trú á að hún sæi út um einhverja rifu (ég hugsaði að Gulla mín væri ekki alltaf sú þolinmóðasta, þannig að ég hugsaði, já, já best að leyfa henni að halda í vonina), en það var þó einhver skíma… þetta gat hugsanlega verið rétt hjá henni, reyndar eins og svo oft áður þegar hún hafði sannfæringu fyrir einhverjum hlut. 

 

Gátum við ekki hreyft fætur, en ég gat hreyft hægri höndina og lá upp á vinstri olnboganum, sem var undir hálsi Gullu eins og ég var búinn að lýsa.  Það er ekki neitt nema kraftaverk að viðskyldum vera algjörlega óslösuð, eftir allt það sem yfir hafði gengið.  Allt spýtnabrakið og sjónvarpið sem við vorum með uppi á vegg í hjónaherberginu flaug yfir okkur, án þess að slasa okkur.  Milli andlita okkar var til dæmis spýta, sem orsakaði það að ég gat ekki lagt höfuðið niður.  Nú hófst biðin, sem ég sagði Gullu að gæti orðið löng.  Hugsanir mínar urðu afskaplega ruglingslegar.  

 

Guð minn góður, ég hafði sagt Magneu að það væri algjör óþarfi að rýma Hjallaveg 9.  Gat það verið að snjóflóðið hafi fallið á blokkina?  Hvaða hús gátu hafa lent í flóðinu, úr því að húsið okkar var í algjörri rúst?  Húsið hans Guðjóns, hans Steina kokks og allra hinna sem voru fjallsmegin við okkur hlutu að hafa lent í flóðinu, húsin við Tjarnargötu og raðhúsin við Hjallaveg, svo var bara spurning um hversu langt til norðurs flóðið hafði náð.  Guð minn, bara að það hafi ekki fallið á blokkina!  Guð gefi að íbúar þeirra húsa sem í flóðinu lentu, kæmust lífs af.  Það var alveg ljóst miðað við hvernig við vorum leikin, að hér höfðu hryllilegir atburðir skeð.  Slíkum hamförum fylgir alltaf dauði og tortíming.  Guð veri með okkur öllum, en ekki gat snjóflóð með slíkri tortímingu eins og í Súðavík, hafa fallið á Flateyri – var þetta ekki bara allt saman ein helber vitleysa?

 

Hvernig ætli frændfólkinu og vinum okkar liði nú, Guðjóni, Heiðu, börnum þeirra, Steina og Lóu, Gunnari, Ellu og Ásu, Svönu og Sóleyju, Benna og Rúnu og öllum hinum?  Hver gæti hafa orðið var við flóðið, og hverjir voru til bjargar?  Hversu langan tíma tæki að vekja fólk til björgunarstarfa?  Ég hugsaði einnig um það að nú færi vonandi fljótlega allt “kerfið” hjá Almannavörnum ríkisins í gang, en það yrðu margar klukkustundir þangað til slík hjálp bærist.  Einnig var ég viss um að reynslan frá Súðavík yrði okkur til hjálpar.

 

Ég taldi að það gæti tekið nokkurn tíma þar til öðrum yrði gert viðvart um flóðið, ég hafði jú verið á vakt almannavarnarnefndar og stillt símann heim til mín, en ef einhver utanaðkomandi ætlaði sér að hringja í almannavarnarnefndina þá yrði ekkert svar í þeim síma!

 

Fljótlega fórum við að skjálfa og titra af kulda, en bæði lágum við að hluta til í snjónum, var ég aðeins á nærbuxum og Gulla var í þunnum náttbol auk nærbuxna.  Bráðnunin kældi okkur.  Sökum skjálfta var erfitt að tala saman en Gulla reyndi allt hvað hún gat til að tala við mig og með þessu róuðum við hvort annað eins og unnt var, en óvissan um drengina kvaldi okkur.....  Gulla spurði mig, áhyggjufull að mér virtist: “Er óþægilegt að ég tali svona mikið elskan mín?”  Ég svarði “Nei, nei fyrir alla muni haltu áfram ég á bara svo erfitt með að svara þér vegna skjálfta.”  Eftir því sem lengra leið varð erfiðara að tala og til þess að geta myndað orðin varð ég að halda við hökuna á mér og halda aftur af skjálftanum.

 

Björgunin.

Eftir nokkurn tíma taldi Gulla sig heyra mannamál eða sjá hreyfingu út um rifuna.  Kölluðum við allt hvað af tók og þögnuðum svo og þá kom þetta ólýsanlega gleðilega og nánast guðdómlega kall til baka "ER EINHVER ÞARNA?"  Gulla kallaði “Við erum hérna.”  Gerði ég mér strax grein fyrir því að þetta væri Einar Guðbjartsson en kallaði samt: Hver er þetta? og þá svaraði þessi vinur minn: "Þetta er Einar Guðbjartar."  Hann hófst þegar handa við að fjarlægja spýtnabrak og drasl frá okkur og þar sem hann hafði enga skóflu þurfti hann að nota hendur til að moka.  Tókst honum að ná okkur upp úr rústunum, fyrst mér og hjálpuðumst við síðan við að toga í handleggina Gullu (hún var lengi að ná sér í handleggjunum) og tókst okkur að draga hana út.  Tókst okkur að ná sænginni og slá henni utanum Gullu.  Hluti þaksins hafði sem sagt legið yfir okkur, en ekki á – til allrar guðs lukku.  Miðað við að flóðið hafi fallið tíu mínútum fyrir fjögur á húsið, þá lágum við um eina og hálfa klukkustund í snjónum, sem sagt ótrúlega stuttan tíma miðað við aðstæður - þó okkur hafi þótt biðin nógu löng.

 

Rétt í því að við vorum komin út undir bert loft sá ég (óljóst þó) að allar aðstæður voru gjörbreyttar, við vorum komin langt út fyrir lóð að mér fannst a.m.k. og húsið í algjörum spón, efri hæð hússins þeirra Guðjóns og Heiðu fyrir neðan húsið okkar.. guð minn góður gat þetta verið rétt sem við blasti..????  Sá ég síðan Guðjón frænda koma gangandi í áttina til okkar, Eiríkur H(estur) Sigurgeirsson kom síðan að og faðmaði ég hann, Róbert Hallbjörnsson vélstjóri mun hafa verið kominn að líka, en ég geri mér ekki fulla grein fyrir því sjálfur. 

 

Sólborg - rafmagns og hitalaus.  Fyrsta neyðarskýlið.

En guð minn góður, hvað skyldi hafa orðið um drengina okkar....?  Við kölluðum til mannanna að bjarga nú sonum okkar sem við töldum að gætu verið undir þeim hluta þaksins sem sjónvarpsloftnetið væri, en það virtist vera heillegt.  Hjálpaði Einar, Eiríkur Sigurgeirs (og fleiri??) okkur að komast yfir á elliheimilið, Sólborg, þar sem tekið var vel á móti okkur.  Ásdís M Jónsdóttir var þá á vakt, en Helga Guðmundsdóttir var kominn þar, en henni hafði tekist að komast hjálparlaust út úr húsi foreldra sinna á Tjarnargötu 7.  Ásdís tíndi til föt á okkur og gaf okkur smávegis kaffi, en allt rafmagn var farið af húsinu.  Ég fékk rauða lopapeysu og joggingbuxur af Ásdísi og líklega sokka.  Gulla fékk einhver föt lánuð líka og Smári - skrýtið hvernig þetta bara gerðist.  Þegar ég klæddi mig í sokkana, sá ég að ég hafði fengið smá skrámu á hægri fótinn, líklega eftir að hafa stigið á glerbrot í snjónum.  En litlu síðar voru komnir mun fleiri þarna, Guðjón, Heiða og fjölskylda, Gréta Sturludóttir og Guðmunda Júlíusdóttir og fleiri komu við....  Helga Guðbjartar kom síðan á vaktina á elliheimilinu.  Ég var í einhvers konar móki, hristist og skalf af kulda, og leyfði mér ekki að vona að synir okkar væru á lí…., jú annars það gat ekki verið annað.  Ég fékk hljóð grátköst, grét samanhnipraður eins og barn…..

 

Biðin eftir strákunum var víst ekki löng (ca. 15 mín) þó okkur þætti hún vara heila eilífð.  Sá ég út um gluggann að Einar G kom með Smára leiðandi til hússins, á náttbolnum...gleðin var ólýsanleg yfir því að sá litli skyldi vera heill, en hvað með þann eldri....?  Tárin brutust fram um leið og ég bað til guðs...með þökkum og fyrirbæn....  Þegar Smári var kominn inn sagði hann okkur að Grétar Örn hafi brotið glugga og brotist út en sagt sér að verða eftir.  Smári sagði að hann hafi náð að draga til sín sængurhorn, og hniprað sig saman um leið og hann breiddi sængina yfir fætur sína á meðan hann beið – einn í kuldanum og snjónum.  En hann sagði að lítill snjór hafi komið á sig. 

 

Þarf vart að lýsa þeirri angist sem við upplifðum að heyra að Grétar hafi brotist út í óveðrið á nærbuxunum einum fata.  Þó við værum auðvitað einnig ánægð með að hafa fengið Smára og vonuðumst við auðvitað eftir því að Grétar væri ekki langt undan… en óvissan og kvíðin var nístandi.  Guðdómlegt er að geta vafið barn sitt örmum og það á lífi, eftir slíka atburði, Grétar hlyti að vera einhvers staðar á lífi, annað var ósanngjarnt úr því hann hafði komist lífs af og út úr rústunum af sjálfsdáðum.

 

Nokkru síðar hringdi Magnea vinkona okkar (eða voru það kannski Gulla og Heiða sem fundu þetta út með því að hringja?) og sagði hún okkur frá því að Grétar hafi hlaupið til sín.  Síðar kom í ljós að hann hafði hlaupið, á nærbrókunum og bol einum fata, yfir að Hafnarstræti fyrst, þar sem Þorkell Ingvason kallaði til hans að hlaupa eftir hjálp, hljóp hann þá niður fyrir pósthús, og þar hljóp hann yfir að skúr (við Uffuhús á Grundarstígnum), sem hann vissi að gat var á og stakk hann höfðinu inn um gatið til þess að ná andanum og fá í sig aukinn kraft, og hljóp síðan þvert yfir Grænagarðinn yfir á Brimnesveg 20, þar sem hann tjáði Magneu hvað gerst hafði, en lagðist síðan niður, aðframkominn af þreytu. 

 

Sorgin settist að.

Gátum við því glaðst innilega fyrir okkar hönd, en gleðin var að sjálfsögðu blönduð miklum trega, því nú tóku slæmu fréttirnar að berast, Sólrúnu Ásu dóttur Gunnars frænda og Ellu tókst ekki að bjarga á lífi, og hvað t.d. með frænkur okkar, dætur Eiríks og Rögnu, og allan þann mikla fjölda fólks, sem bjó þar fyrir ofan og var ekki kominn fram.  Hversu margir höfðu lent í flóðinu, hverjir voru heima o.s.frv.  Við skulfum, og grétum í móki og eins og í leiðslu.  Gulla og Heiða voru á fullu við að hringja, undirbúa komu einhverra (slasaðra?), í símanum en ég hreinlega var í móki, skalf eins og hrísla.  Ásdís, Gréta, Helga Jónína, já og hundarnir hennar Helgu voru þarna líka og fólkið allt í hring strauk hvort öðru og reyndi að gefa hvort öðru styrk.  Við báðum tárvot, í hljóði, hvert fyrir öðru og einkanlega þeim sem saknað var.....

 

Við brutumst inn á heilsugæslustöðina og þar var unnt að hringja út af svæðinu, Gulla og Heiða hringdu sitt hvort símtalið til þess að koma skilaboðunum af stað um að við værum heil á húfi.  Húsið var rafmagnslaust og kólnaði hægt og bítandi, enda enginn hiti á því.  Gátum við farið að hjálpa til við björgunina?  Var það eitthvað sem var raunhæft, var ekki aumingjaskapur að reyna ekki að hjálpa, hvað með fatnað og annað sem til þurfti? Þessar hugsanir hrjáðu mig lengi lengi, jafnvel vikum eftir flóðið.

 

Neyðarskýli slasaðra og annarra fórnarlamba flóðsins í mötuneyti Kambs.

Vorum við flutt af björgunarsveitinni, einum til tveim klst. eftir að við komum á elliheimilið, niður í miðstöð Rauðakrossins (neyðarhjálparstöðina) í mötuneyti Kambs, þar sem þegar var komið (ótrúlega) öflugt lið til þess að laga heita drykki og búa til mat.  Náð var í Grétar Örn hjá Möggu á leiðinni niður í mötuneytið.  Reyndum við síðan eftir megni að hjálpa til við störfin í neyðarstöðinni, við huggun, hjúkrun og það sem þurfa þótti....  Smám saman virtist ljóst að flóðið hafði ekki fallið á húsin við ofanverðan Hjallaveginn og ystu húsin við Ólafstún.  Björgunarliðið sem kom var ekki með mikinn fyrirgang, en ég man að allt í einu voru þarna komnir, Þorsteinn læknir, séra Magnús á Ísafirði og séra Kristinn á Þingeyri.  Okkur voru boðnar einhverjar róandi pillur – já ég tók eina til að byrja með.  Þeir höfðu komið með Æsunni frá bryggjunni í Holti.  Okkur skildist að búið væri að setja upp miðstöð fyrir björgunarsveitirnar í samkomuhúsinu og að Hafnarstræti 14, á neðri hæðinni hjá Hirti og Helgu.  Við kveiktum á útvarpi en þaðan var að frétta, að allt sem í mannlegu valdi stóð, var gert til þess að koma Flateyringum til hjálpar.

 


Björgunarstörf komin á fullt.

Tímaröðin á atburðunum er ekki skýr í mínum huga, enda við öll dofin af þessum yfirþyrmandi atburðum, sorg og hryllingi.  Búin að fá róandi lyf, reikuðum við um eirðarlaus og töluðum hvort við annað.  Börnin sem voru þarna voru ótrúlega róleg, en Gulla segir mér að hún Harpa hafi verið hreint ótrúleg, reyndar stórkostleg, við að hafa ofan af fyrir börnunum.  Pokar tóku að streyma að, með fötum til þess að fólk gæti klætt sig.  Guðrún Páls og fleiri konur komu og tóku til við að útbúa mat, sem að einhverju leiti var til á staðnum, en svo komu matvörur í kassavís frá Félagskaupum.  Við vorum vel haldin.

 

Rúna Kristjáns var þarna komin, en ekki Benni?  Jú, hún sagði mér grátandi að mig minnir, að hún hafi ekki getað fest svefn um miðnættið og sagt við Benna að hún ætlaði að fara niður í sparisjóð og sofa þar, en þegar Benni bjó sig til að fara með henni, sagði hún honum að það væri algjör óþarfi, hann gæti alltaf sofið rólegur þrátt fyrir veðurofsann, en hún einfaldlega gat ekki fest svefn.  Rúna fór því ein af stað, en í veðurofsanum þá varð hún að gefast upp þegar hún var komin niður að húsinu hjá Helgu og Hirti við Hafnarstræti 14.  Þar tók hún hús og fékk að leggja sig (eins og þau hjónin höfðu gert við álíka tilvik áður), en lítið hafði henni orðið svefnsamt um nóttina.  Við reyndum að gefa henni styrk, en guð minn góður húsið þeirra var örugglega í méli, eftir hamfarirnar, enda eitt af efstu húsunum.  Við urðum að bíða enn um sinn eftir fréttum af afdrifum Benna.

 

Gunnar frændi og Ella voru komin, en þau báru harm sinn með ótrúlegri yfirvegun, þrátt fyrir mikið harðfylgi og snögg viðbrögð þeirra tókst þeim ekki að bjarga dóttur sinni.  Ása var sú fyrsta sem við höfðum staðfest að væri látin.  Hverjir aðrir yrðu á þessum lista?  Það var því miður nokkuð ljóst að það yrðu fleiri, en við leyfðum okkur að vona að það yrðu ekki margir.

 

Steini Gísla var þarna í Mötuneytinu, en hvernig leið þessum vini okkar?  Sonur hans og tveir sonarsynir voru ófundnir, en hús Steina og Lóu sem stóð af sér flóðið að mestu, skemmdist þó nokkuð.  Svo var komið með Atla, annan sonarson Steina, hann var lagður ofan á tvö samliggjandi borð, ofan á teppi.  Hann skalf svo mikið að borðin nötruðu.  Læknirinn sendi mig með vatnspoka og sagði mér að hita hann í örbylgjuofninum (hvernig hefðum við farið að ef enginn örbylgjuofninn hefði verið til staðar?).  Ég hitaði pokann eins og hann sagði mér og kom með hann til baka, búinn var til þvagleggur og vatninu sem búið var að hita var síðan dælt upp í þvagrásina – öfuga leið.  Ég man alltaf hvað Atli var hissa þegar læknirinn spurði hann hvort hann finndi ekki fyrir því að verið væri að dæla heitu vatni upp í tippið á honum – hann sagði lækninn ljúga, það gæti ekki verið, hann fann ekkert fyrir því!  Svo var reynt að spyrja hann út úr því hvar bróðir hans, pabbi og Kiddi Jóns hafi sofið, hvernig litur var á veggjunum þar sem þeir höfðu verið sofandi?  Hvernig skilaboðunum, svörum hans, var komið til skila til björgunarmannanna, veit ég ekki, en ég varð var við að mikið gekk á. 

 

Magga Kristjáns, Sóley og Anton fengu öll álíka aðhlynningu og Atli.  Öll í sama salnum, innan um hjúkrunar- og læknalið og okkur hin, sem vorum þó ekki alltaf inni hjá þeim, stundum frammi í fremri salnum.

 

Magga Karls og Anton bróðir hennar voru þarna og biðu frétta af foreldrum sínum og systur.  Systkinin Erlendur, Sigríður og Þorkell Ingvabörn voru þarna – og þegar mér var ljóst (ég man þó ekki hvenær það var) að þau vissu að Þorleifur bróðir þeirra og sambýliskona hans voru látin, þá bað ég séra Magnús (eða var það séra Kristinn?) að setjast með okkur öllum og fara með bæn og huggunarorð.  Enn var grátið. 

 

Gulla og Heiða voru á fullu við að strjúka og hlúa að þeim sem komið var með í stöðina.  Ég man að einhvern tímann um morguninn var spurt um það hvort einhver sem hafði lent í flóðinu treysti sér til að koma í símann og tala við fréttamann.  Ég fór í símann og talaði við Elínu Hirst, að mig minnir.  Ég talaði líka við einhvern annan fréttamann, karlmann, sem ég man að spurði mig að því hvort ég hafi verið úti meðal björgunarmannanna?  Ég var nýbúinn að segja honum að ég hafi verið grafinn í rústunum fyrr um morguninn á Adamsklæðunum einum!  Mér sárnaði þessi spurning svo heiftarlega, að hún suðaði fyrir eyrum mér mánuðum saman, eða var það vegna þess að ég átti að bíta á jaxlinn og koma mér út og fara að hjálpa til við björgunina?

 

Biðin eftir fréttum af fólkinu var ákaflega erfið, en erfiðast var að fá stórslasaðan fósturbróður mömmu minnar, Benjamín Gunnar Oddsson, og horfa upp á árangurslausar lífgunartilraunir lækna og hjúkrunarliðs, sem örugglega verður fáum við jafnað af getu, kunnáttu og dugnaði - guð blessi þau öll. Rúna og aðrir sem voru í mötuneytinu vissu ekki um það hver það var sem komið var með, þegar björgunarsveitarmennirnir komu með Benna.  Skilaboð bárust um að komið yrði með mikið slasaðan mann í neyðarskýlið.  Við klæddum tréverkið í fremri matsalnum með hvítu lérefti og fólkið var beðið um að vera rólegt fyrir innan, á meðan sá slasaði yrði borinn inn í innri salinn.  Ég fékk að vera með lækna og hjúkrunarliðinu, einnig Gulla og auðvitað Heiða sem var einfaldlega að störfum eins og ekkert væri eðlilegra fyrir hana.  Ég sá strax að Benni var mikið slasaður, andlit hans og brjóst var illa farið, en björgunarsveitarmennirnir sögðu að læknir sem var á slysstað hafi talið hann vera með lífsmarki þegar hann fannst.  Ég baðst fyrir í hljóði. 

 

Nálægðin við dauðann.

Gulla og Heiða klæddu Benna í sokka og nudduðu og nudduðu fætur hans og lögðu að líkama sínum.  Læknirinn sem stjórnaði aðgerðum og aðstoðarfólk hans hlýtur að hafa lent í slíku áður, fumlaust og án hávaða hömuðust þau við hjartahnoð og guð má vita hvað – þetta var eins og að horfa á kvikmynd.  En allt kom fyrir ekki.  Þegar yfirlæknirinn sagði sínu fólki að frekari lífgunartilraunir væru tilgangslausar, fóru Gulla og séra Magnús fram til þess að tjá Rúnu sorgartíðindin.  Ég fór í humátt, þegar ég stóð í dyrunum að stóra salnum, var Rúna komin í fangið á Gullu og Magnúsi – orð voru í raun óþörf, hún gerði sér umsvifalaust grein fyrir stöðunni.  Við gengum öll saman grátandi inn í innri salinn, en vorum ekki viss um hvort rétt væri að Rúna fengi að sjá Benna strax, því hann var illa farinn.  Læknaliðinu hafði þó tekist að laga hann lítillega til áður en Rúna kom að líkinu.  Hún vildi hins vegar strax fá að sjá hann Benna sinn.  Ég gekk með henni að Benna, og bæði féllum við yfir líkið, hún um hálsinn á honum og ég aftan við hana og hélt utan um hana og Benna.  Við grétum.  Rúna sagði eitthvað á þá leið:  “Af hverju Benni minn, núna loksins þegar við vorum farin að ná svo vel saman og að eiga svo góða hluti saman að starfa að?”  Já, vegir guðs eru stundum óskiljanlegir.  Við fórum saman með bænir.  Ég veit ekki hvenær var farið með líkið – það er hreinlega ekki til í mínu minni lengur.

 

Stundirnar sem við upplifðum næstu klukkustundirnar, þegar sorgin knúði dyra aftur og aftur, voru ekki auðveldar, en samhugurinn og fyrirbænir með hjálp séra Magnúsar frá Ísafirði og séra Kristins frá Þingeyri voru okkur mikill styrkur. Gleðin átti líka sínar hliðar á neyðarstöðinni, þegar komið var með Sóleyju, Möggu, Anton, Atla og fleiri....

 

Þegar fólkið í neyðarstöðinni í mötuneyti Kambs hf., heyrði í þyrlu Landhelgisgæslunnar, mátti greina gleðitár í augnhvörmum margra viðstaddra, vonin vaknaði á ný um að fleiri finndust á lífi....  Við þyrptumst út að gluggunum og fylgdumst með því þegar þær lentu hver á fætur annarri á grundinni ofan við smábátahöfnina.

 

Suðurferðin.

Þegar líða tók á daginn var farið að tala um að flytja okkur til Ísafjarðar, en af hverju til Ísafjarðar?  Við vildum ekki fara þangað.  Okkar fólk var í Reykjavík og við vildum komast þangað og okkar fólk vildi fá okkur þangað.  Við tókum því fagnandi fréttum um að ef til vill kæmumst við með þyrlunum til Reykjavíkur, en þegar við í einu hendingskasti vorum öll fjölskyldan komin hálfklædd í bíl út á grund, þá var okkur tjáð að því miður væru þyrlurnar orðnar fullar og við yrðum að fara til baka – ég var sár og reiður, en bældi reiðina til þess að valda sonum mínum og Gullu ekki meira hugarangri en þegar var orðið.  Við fórum því aftur í mötuneytið og síðar um daginn var okkur tjáð að við gætum farið með varðskipinu sem færi klukkan átta um kvöldið, en það var Ægir. 

 

Við kvöddum fólkið í mötuneytinu sem ekki vildi fara með skipinu, bæði vegna þess að veður var mjög vont á leiðinni og einnig vildu sumir einfaldlega ekki fara í burtu – áttu ýmsu ólokið að þeim fannst áreiðanlega.  Við töldum að ekkert væri fyrir okkur að gera annað en að drífa okkur í faðm nánustu ættingja og vina fyrir sunnan.

 

Við fengum sjóveikipillur og róandi lyf.  Fórum við nánast strax í kojur.  Grétar var í káetu með Helgu Jónínu, Gulla og Smári voru í sitt hvorri kojunni og ég lagðist á örmjóan bekk í káetunni hjá þeim.  Ég skorðaði mig af milli þils og borðs.  Lá ég á bakinu og hugsaði um að þetta yrði erfið ferð, enda brjálað sjóveður að sögn þeirra sem komu að sunnan.  Ég tók því viðbótarskammt af róandi lyfinu sem við höfðum fengið í nesti.  Strákarnir og Gulla höfðu einnig fengið sinn skammt.  Ég veit að það var ekkert annað en yfirþyrmandi þreytan og áhrif lyfjanna sem urðu þess valdandi, að ég var sofnaður áður en við vorum komin út úr firðinum.  En þegar skipið beygði fyrir Barðann, mun það hafa tekið svo miklar dýfur að allt leirtau, sem var í messanum, flaug út um allt og brotnaði, alla vega var ekkert leirtau til að borða af þegar ég kom upp um morguninn þegar við vorum komin langt inn á Faxaflóann.  Ferðin gekk vel fyrir okkur feðgana því við sváfum held ég allir megnið af leiðinni, en Gulla sem er ótrúlega sjóhraust, gat víst ekki sofið mikið.

 

Við komum til hafnar í Reykjavík um klukkan ellefu morguninn eftir og á móti okkur tóku Ester tengdamamma, Tobba, Hinrik, Gummi og Auðunn Gunnar, einnig voru Kristján sveitarstjóri (kominn frá Flórída) og Solla (?).  Fleiri voru þarna til að taka á móti okkur og öllum hinum.  Búið var að skipuleggja rútuferð fyrir þá sem vildu, í neyðarstöð Rauðakrossins á Rauðarárstíg.  Við ætluðum hins vegar með okkar fólki í Bólstaðarhlíðina til tengdamömmu.  Helgi Jónsson fréttamaður sjónvarpsins RÚV, spurði mig af mikilli nærgætni að mínu mati, af hafnarkantinum (við vorum ekki komin frá borði), hvort ég vildi leyfa sér að taka smá viðtal við hann.  Ég svaraði strax, já.  En var svo vitlaus, stressaður eða dópaður að ég byrjaði á að tala við hann strax og við komum niður landganginn, meira að segja áður en við Smári (sem ég hélt á) vorum búnir að heilsa okkar fólki.  En þegar Auðunn kom og ruddi Helga og myndatökumanninum frá, þá sýndi Helgi aftur mikla nærgætni og dró sig í hlé á meðan við föðmuðum okkar fólk. Grátið var, en nú af feginleik og gleði.  Við vorum ótrúlega hamingjusöm fjölskylda, faðmlögin hafa sjaldan verið meira gefandi.  Sjónvarpsviðtalinu var síðan lokið með yfirvegun.

 

Já, það var ekki annað hægt en að líkja þessu við martröð.  Við fórum á tveim bílum frá höfninni, með okkar fólki upp í Bólstaðarhlíð.  Þangað kom allt okkar fólk.  Við sögðum sögur af atburðum síðasta sólarhrings.  Samansafn gleði og sorgartára var í augnhvörmum allra.  Síminn þagnaði ekki og fólk tók þátt í gleði okkar, en var auðvitað um leið ákaflega hryggt og sorgbitið yfir þessum hörmungaratburðum.  Það er erfitt að lýsa þeirri tilfinningu sem fylgir því að vera hvort tveggja í senn ákaflega glaður vegna eigin hlutskiptis en um leið dapur og hryggur út af missi fjölmargra ástvina og kunningja.  Veraldlegar eigur skiptu hreinlega engu máli þessar stundirnar. 

 

Úrvinnsla og eftirmál.  Samtíningur.

Hér væri auðvitað mál að linnti að sinni og hingað náðu endurminningarnar í fyrstu.  En það er ekki síður mikið í þær minningar spunnið sem varða hjálp Rauðakrossins og almennings. Sú ótrúlega sterka upplifun að finna allan stuðninginn af hálfu Rauða krossins, alls almennings og síðast en ekki síst stuðningi ættingja og vina.  Kærleikurinn er öllu öðru æðri.  Ýmislegt skyggði á svo sem græðgi sumra sem komu í neyðarstöð RKÍ, á Rauðarárstíg, en það var óþægileg og ótrúleg reynsla að sjá hvernig sumt fólk hreinlega laug sig inn á neyðaraðstoðina.  Við horfðum á fólk, sem við þekktum mjög vel, þegar það fékk peningaframlög, fatnað og aðra aðstoð sem það átti bara alls ekki nokkurt siðferðilegt tilkall til.  Þegar ég færði þetta í tal við framkvæmdastjóra Rauðakrossins þá sagði hún að þetta væri einfaldlega þekkt við slíkar aðstæður og væri kallað fórnarkostnaður atburðanna, eða eitthvað í þá áttina.

 

Við fengum ótrúlegan styrk frá öllum þeim sem sýndu hluttekningu.  Til dæmis þegar hún Elín Pálsdóttir úr félagsmálaráðuneytinu kom með fatnað, Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Ísafirði kallaði, á eftir mér á Rauðarárstígnum og spurði má ég faðma þig?  Hvort hún mátti – ég fékk ótrúlegan styrk við það.  Eða þá þegar skólabróðir minn Kristján verkfræðingur Guðmundsson snarstoppaði við gangbrautina á Hlemmi og skrúfaði niður rúðuna, við skiptumst á innilegum kveðjum en báðir voru við það að fara að gráta - hluttekning Kristjáns var einlæg.  Slíkar sögur get ég auðvitað sagt mun fleiri og bið ég himnafaðirinn um að launa þessu fólki öllu.  Fjölskyldur okkar Gullu, hvernig þær sendu okkur alls konar gjafir, peninga, fatnað, að ógleymdu boði Marteins Kratsch um að lána okkur íbúð sína í Álftamýrinni, í næsta nágrenni við Ester mömmu Gullu og Auðunn son okkar sem dvaldist hjá henni.  Velvildin var svo mikil að ég hreinlega brotnaði aftur og aftur, þegar ég upplifði hana svo ríkulega sem raun var vitni.

 

Úrvinnsla atburða var strax komin á fullt.  Strax var farið að skipuleggja björgun úr rústum og við fórum vestur, Guðmundur bróðir Gullu, Hinrik bróðir og Grétar Örn.  Björgunarsveitarmenn voru óþreytandi við að grafa í snjónum og björguðu ótrúlegum hlutum úr eigu okkar.  Til dæmis var einn björgunarsveitarmannanna sem kom að máli við mig og sagðist áreiðanlega vera að moka í rústum svefnherbergis okkar hjóna.  Hann spurði hvort það væri eitthvað sem ég saknaði þaðan sérstaklega?  Ég var nú aldeilis á því, því mig vantaði gleraugun mín, sem ég var aðeins búinn að eiga í nokkrar vikur – og viti menn að hann kom nokkrum mínútum síðar, með gleraugun, nánast eins og ný, ég lagði þeim núna í haust eftir þriggja ára notkun.  Allt myndasafn okkar bjargaðist til dæmis, en eina mublan sem bjargaðist heil og við eigum enn, var rúmið hans Auðunns sem Smári og Grétar sváfu í. 

 

Það er líka ótrúlegt að stór leirkanna, sem mamma mín hafði gefið okkur og Gulla ber alltaf fram í heitt kakó, í jólaboðum og við hátíðleg tækifæri, fannst algjörlega heil í rústunum í mars, þegar Flateyringar og nærsveitamenn fóru yfir rústirnar og tíndu til það sem heillegt var.  Linda Gunnarsdóttir fann könnuna án loksins sem á henni átti að vera og Magnea þekkti hana.  Þegar ég var svo sjálfur að tína úr rústunum í maímánuði 1996, fann ég lokið á könnuna – líka alveg heilt!  Kannan skipar nú enn meiri heiðurssess á heimili okkar, en áður.  Við skulum hafa í huga að það voru jafnvel stórar vinnuvélar búnar að fara yfir rústirnar og björgunarsveitir að ganga yfir þær og moka fram og til baka.  Silfurskeiðarnar og gafflarnir sem Ester hafði gefið okkur, hnífapörin sem frændfólk Gullu gaf okkur í brúðargjöf, þetta var meðal þess sem bjargaðist.  Sögurnar af björgunaraðgerum eru margar og fullkomlega þess virði að setja niður á blað - slíkt verður að ske.

 

Það var líka oft erfitt að bresta ekki í grát, þegar fólk sýndi velvilja sinn í okkar garð, eins og til dæmis þegar Jónas Björnsson á dekkjaverkstæðinu gaf mér dekkið undir bílinn, sem hafði eyðilagst hjá Guðmundi mági mínum, þegar hann fór á bílnum í gegnum jarðgöngin (þau voru opnuð fyrir okkur Flateyringa þessa daga).  Jónas sagði einfaldlega þegar ég spurði hvað á ég að borga: “Þú mátt eiga þetta kæri minn og þarft ekkert að borga.”  Augu mín fylltust af tárum og ég gat varla mælt orð frá munni, en ég tók utan um Jónas og reyndi að stynja út úr mér: Þakka þér innilega fyrir.  Að minnsta kosti vona ég að ég hafi getað gert það.

 

Mér fannst það líka ótrúlegt en það er satt, að á meðan ég var með allt hjálparliðið við að grafa í rústunum, þá fannst mér þetta drasl allt saman einhvern veginn ekki skipta máli.  En svo kom að því að það þurfti að saga þann hluta þaksins sem enn var yfir hluta rústanna.  Einn björgunarsveitarmaðurinn, reyndar held ég að hann heiti Árni og að hann sé slökkviliðsmaður, hann tók fram keðjusög og réðist til atlögu við þakið.  Ég féll saman, gekk afsíðis og grét eins og barn, þakið á húsinu sem ég hafði byggt sjálfur, var nú ekkert annað en drasl sem varð að fjarlægja.  Af hverju að gráta núna?  Mér var þetta lítt skiljanlegt.

 

Slökkviliðsmennirnir úr Reykjavík, m.a. Önfirðingarnir Steini Ingimundar, Þórir Steinars og allir hinir sem ég kann ekki að nefna með nafni, allt björgunarsveitarfólkið víða af landinu, Önfirðingar, Dýrfirðingar, Ísfirðingar, Súgfirðingar og allir hinir, þetta var ótrúlega fórnfúst og kærleiksríkt fólk, allt með tölu.  Skyldum við nokkurn tímann geta fullþakkað þessu fólki ómælda vinnu, kærleik, umhyggju, nærgætni og natni? 

 

Eitt erfiðasta atvikið sem gerðist á öllu tímabilinu, var þegar líkkistum með hluta hinna látnu var komið fyrir í Fossvogskirkju og við komum þar saman með nánustu aðstandendum hinna látnu.  Auðvitað eru allar jarðarfarirnar, og öll sorgin sem fylgir slíkum kunningja og ástvinamissi, eitthvað sem ristir dýpra en orð fá lýst.  Enginn verður sami maður eftir upplifun slíkra sorgaratburða.  Guð varðveiti alla þá sem fórust í flóðinu, aðstandendur þeirra, en ekki síður allt það fólk sem vann að hjálparstarfi, við leit að fólki í rústum snjóflóðsins og síðar að hreinsun rústanna.  Upprifjunin um jarðarfarirnar verður að koma og kemur þó síðar verði.

 

Ég hef ekkert rætt um þann hluta þessara minninga, sem varða samskipti okkar hjóna við Húsnæðisstofnun og baráttu okkar fyrir því að fá það viðurkennt að bætur fyrir húsið, umfram kostnað stofnunarinnar og áhvílandi skuldbindingar, rynnu til okkar.  Við höfðum misst húsið á uppboð árið áður, en töldum okkur vera nánast búin að semja um kaup á húsinu aftur og höfum um það staðfestingu lögfræðingsins sem Húsnæðisstofnun hefur á Ísafirði til þess að annast sölumál eigna sinna.  Saga sem er álíka löng og þessi sem hér hefur verið rituð.  Saga sem enn hefur ekki verið til lykta leidd.

 

Ég hef heldur ekkert rætt um áfallahjálpina.  Held reyndar að ég geti ekkert skrifað um hana að gagni.  Einhvern veginn fór hún að mestu fram hjá mér.  Þá á ég við að ég varð ekkert var við skipulagningu hennar.  Ég lét Gullu einfaldlega um að hafa áhyggjur af þessari hlið mála, taldi mig vera yfir það hafinn að þurfa á slíku að halda.  Gulla myndi sjá um að strákarnir fengju þá hjálp sem þeim var nauðsynleg og í boði var, allt með hjálp vinkonu sinnar og hjálparhellu Bjarnheiðar.  Það var ekki fyrr en Gulla sagði mér að hún væri búin að panta tíma fyrir mig í áfallahjálp hjá Sæunni Kjartansdóttur, en hún hafið farið til hennar sjálf, eftir ábendingu Bjarnheiðar vinkonu sinnar.  Ég lét undan! 

 

Já, og er þeirrar skoðunar í dag, að Gulla hafi sjaldan, ef nokkurn tímann tekið jafn skynsamlega ákvörðun fyrir mig!  Eftir þá reynslu sem ég fékk af þessum viðtölum við Sæunni, er ég mikill stuðningsmaður slíkrar aðstoðar, en hins vegar er ég líka viss um að ýmislegt er að varast, þessu tengt.  Gulla lenti til dæmis á einhverjum hópfundi, sem varð næstum til þess að brjóta hana alveg niður.  Ég var fyrir vestan þegar hún kom af þessum fundi og hringdi hún í mig í mikilli geðshræringu – að sjálfsögðu.  Aðstandendur tveggja látinna fórnarlamba flóðsins, vildu nefnilega halda því stíft fram á þessum fundi, að sveitarstjórnin og almannavarnarnefndin bæru fulla ábyrgð á þessum atburðum. Gulla tók þetta beint í hjartastað og fannst að verið væri að ásaka mig fyrir að vera valdur að dauða þessa fólks.  Vissulega hugsaði ég oft um ábyrgð mína á þessum atburðum, en ég held að ég hafi samt aldrei verið á þeirri skoðun, að ég eða aðrir samstarfsmenn mínir, í almannavarnarnefnd, hreppsnefnd, Veðurstofu og víðar hefðum átt að geta séð þessa atburði fyrir.  En slíkar ásakanir eru samt særandi.

 

Synir okkar, Grétar og Smári fengu aðstoð, en Auðunn enga.  Ég tel að hann þurfi, eða alla vega að hann hefði þurft á aðstoð að halda.  Smári er ekki enn búinn að vinna fyllilega á þessum atburðum, en er samt í góðu formi að mínu áliti.  Grétar og við hin líka.

 

Hlutur bæjarfélagsins.

Flateyrarhreppur var sameinaður fimm öðrum sveitarfélögum 1. júní 1996, en kosið var um sameininguna í desember 1995.  Engan stuðningsmann þeirrar sameiningar held ég að hafi órað fyrir því að sameining ætti eftir að leika okkur eins og raun ber vitni.  Eins og öllum ætti nú að vera kunnugt um, þá réð (haustið 1998) núverandi bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, Guðjón Petersen, fyrrverandi framkvæmdastjóra Almannavarna ríkisins, til þess að semja skýrslu um mál vegna snjóflóðsins sem ólokið er úrvinnslu á.  Í þeim drögum sem ég hef augum borið, er ljóst að ábyrgð á núverandi stöðu og afburða slælegri úrvinnslu mála er fyrst og fremst hjá fyrrverandi bæjarstjóra og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.  Ábyrgð sem enginn ætti að þurfa að axla.  Guð gefi að unnt verði að finna úrlausn þessara mála – þó seint verði.

 


Samhugur í verki.

Ég ætla hér í lokin aðeins að henda upp boltanum varðandi Samhug í verki, þó að það sé ekki hluti af endurminningum né áhrifum flóðsins.  Það er hins vegar mál tengt úrvinnslunni, sem ég verð aldrei sáttur við, hvernig stjórn sjóðsins fór að.  Af fjölmörgu er að taka, en hér læt ég nægja að nefna að Samhugur í verki í Súðavík, veitti íbúum þar byggingarstyrk.  Samkvæmt Morgunblaðsfrétt vorið 1996, var það 1milljón króna sem veittur var í styrk til þeirra sem kusu að byggja að nýju í Súðavík. Þessi gjörningur var án alls efa þúfan sem velti hlassinu, varðandi ákvörðun fjöldans um áframhaldandi búsetu í Súðavík.  Hvers vegna er unnt að gera upp á milli fólks með þessum hætti?  Værum við ekki í annarri stöðu ef slíkt hið sama hefði verið gert gagnvart okkur?  Hvar kom það fram við söfnun þessara peninga að þeir væru ekki allir ætlaðir til uppbyggingar á Flateyri?  Það kom ekki fram í neinum þeirra gagna, sem ég hef skoðað og birtust opinberlega söfnunardagana. Opnun sjóðsins að nýju er áhugamál fjölmargra íbúa á Flateyri, enda eru fjölmörg mál hér enn ófrágengin.  Íbúasamtökin hafa tekið þetta mál upp á sína arma, sem og fjölmörg önnur úrvinnslu og hagsmunamál okkar sem hér á Flateyri viljum búa. Svo er það setningin okkar sígilda „Enginn á að fá meira en hann átti!“ Þessari setningu verður erfitt að gleyma.

 

 

Niðurlag.

Eins og sagði í upphafi, var megin efni þessara endurminninga sett niður á blað þann 1. desember 1995.  Var það til þess að létta á þyngslum og hjálpa til við varðveislu þessarar minningar á sem jákvæðastan hátt.  Vinnan við að endurreisa heimili og sálarlíf fjölskyldunnar hefur tekist með góðri hjálp ættingja, vina og kunningja, sem óskyldra og eindregnum vilja okkar allra, en þar verður hlutur trúarinnar á guð og Jesúm Krist öðru æðra.  Ólýsanleg er sú umhyggja, samhugur og velvilji sem við höfum orðið aðnjótandi, kossar og faðmlög, þétt handartök, eða klapp á öxlina, jafnvel gefandi bros hefur gefið okkur meira en orð fá lýst.  Eitt minningarbrot um þetta: Ég var að fara inn á hjálparstöð Rauðakrossins við Rauðarárstíg, daginn eftir að við komum suður, þegar kallað var á mig: “Eiríkur!” Ég leit við og sá að Ingibjörg Guðmundsdóttir (“BG & Ingibjörg”) hleypur í áttina til mín og spyr: “Má ég faðma ykkur?” Ég svaraði ekki, heldur fleyði mér upp að henni og við föðmuðumst. Ólýsanleg vellíðan fylgdi í kjölfarið! Vinátta og hjartahlýja er til í þessu litla samfélagi okkar í þeim mikla mæli að ég hygg að íslensku samfélagi verði seint grandað.  Erfiðleikar hafa og munu áfram verða á vegi okkar, en við þurfum ekki að kvíða framtíðinni með slíkan kærleika og samhug meðal þegnanna.

 

Eiríkur Finnur Greipsson.

 

ES. Tilefni þess að ég setti þessi minningarbrot saman í þessu formi, er að ég átti viðtal við Jóhönnu Guðrúnu Kristjánsdóttur þann 26. desember 1998 um möguleika okkar á að safna saman minningarbrotum, sem flestra, um þessa atburði.  Hvað fólk aðhafðist, hvernig það upplifði atburðina og eftirmál þeirra.  Jóhanna gaf mér leyfi til að lesa minningarbrot sem hún hafði sjálf tekið saman.  Ég átti ýmis minnisblöð í tölvu minni um þess atburði og á reyndar fleiri, en það eru aðallega atriði um persónuleg mál, sem ég hef verið að vinna með.  Sum varðandi mig og mína fjölskyldu, annað varðandi vini og kunningja.  Vonandi gefst einhver tími síðar til að skrásetja allt sem fylgdi í kjölfarið - það eru merkilegir hlutir líka.

 

 

Ţmsir vestfirskir tenglar

┴hugavert

Flokksstarfi­

SveitarfÚl÷g

© EirÝkur Finnur Greipsson | VefsmÝ­i: Styx ehf./Magn˙s Hßv.