Eftir flóðið orti skáldið Guðmundur Ingi Kristjánsson, frá Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði, eftirfarandi ljóð.
Við andvörpum hljóðlát en hugleiðum þó
hve höggið var mikið er byggðina sló.
Hún magnar sín áhrif svo orðlaus og skýr
sú allsherjar sorg er á Flateyri býr.
Og létt er að tárast á líðandi stund
og leita sem vinur á syrgjenda fund;
í harmanna tíbrá þau titra svo glöggt
þau tuttugu hjörtu sem brustu svo snöggt.
Við barnshjartað syrgjum er sviplega brast
og sjómannsins handtakið, öruggt og fast
og alla þá kosti sem fóru svo fljótt
í framhlaupi dauðans á skelfingarnótt.
Svo biðjum við Guð að hann gefi þann frið
sem græðir og líknar og una má við.
Og alþjóðar samúð sé sýnileg gjörð
í sorginni miklu við Önundarfjörð.
Guðmundur Ingi Kristjánsson (1907-2002)