Sagan af súkkulaðikönnunni hennar Gullu



Það gerðist margt skrítið í tengslum við snjóflóðið á Flateyri þann 26. október 1995. Megnið af persónulegum munum okkar, fjölskyldunnar að Unnarstíg 3, eyðilagðist. Þó voru ýmsir hlutir sem fundust, til dæmis hluti bókaeignar okkar, allar myndir – já allar myndir, myndbandsupptökur og allt (!) vinylplötusafnið.

Megnið af því sem fannst heillegt fannst í björgunaraðgerðum björgunarsveitarfólks, sem aðstoðaði mig, Hinrik bróðir og Guðmund mág við að leita í rústum hússins okkar.

En á þeim mánuðum sem eftirlifðu fram á vor, fóru leitarflokkar sjálfboðaliða yfir rústirnar, í kjölfar leysinga og týndi til allt sem heillegt var og hélt því til haga. Eitt sinn var kallaður út hópur fólks – ég held að það hafi verið í mars – og fór fólkið yfir rústirnar og tók til handargagns heillega hluti.

Ein úr hópi leitarfólks, Linda Gunnarsdóttir, gekk þá meðal annars fram á óskemmda leirkönnu (aðeins smá skarð er á sætinu á innanverðum hálsinum fyrir lokið).  Nánar tiltekið fann hún gamla súkkulaðikönnu, sem á vantaði lokið. Sýndi hún Magneu Guðmundsdóttur gripinn og taldi hún strax að þar væri komin kakókannan sem Gulla vinkona hennar hefði átt á Unnarstígnum. Kom svo síðar í ljós að það reyndist vera rétt mál. Gulla fékk síðan könnuna - án loksins.

Í maíbyrjun 1996 var ég síðan að grafa í rústum hússins okkar og tíndi til þar ýmislegt smálegt, sumt skemmt, annað ónýtt, en viti menn: meðal þess sem ég fann þarna var sjálft lokið af könnunni – algjörlega óskemmt.  Kanna þessi var áður í eigu móðurömmu minnar en gefin okkur af móður minni 1987.

Myndin er af þessari könnu sem nú skipar heiðurssess í eldhúsinu á Grundarstíg 2, þaðan sem hún kom til okkar.


Flateyri í apríl 2001.
Eiríkur Finnur Greipsson

 













Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.