Börnin í fyrirrúmi

Margrét Halldórsdóttir skrifar þann 21. maí 2010 grein um fjölskyldumálin á bb.is hér.

 

Einnig má lesa greinina hér:

 

Börnin í fyrirrúmi
Allir geta sammælst um að velferð barnanna okkar er forgangsmál – hvar í flokki sem við stöndum. Það ber auðvitað hver ábyrgð á sínu barni en við berum líka ábyrgð á barni nágrannans og samfélagið í heild kemur með beinum eða óbeinum hætti að uppeldi barnanna. Við viljum góða skóla þar sem fagmennska er höfð í fyrirrúmi og að börnin geti haft eitthvað uppbyggilegt fyrir stafni í frítíma sínum. Það er staðföst trú mína að með uppbyggilegu starfi íþrótta og tómstunda skilum við heilsteyptari einstaklingi út í lífið og það hlýtur að vera markmið okkar allra.

En hvernig er þetta hér í Ísafjarðarbæ? Ég hef mikið unnið með íþróttahreyfingunni hér í Ísafjarðarbæ undanfarin 17 ár og get fullyrt að hér er vel gert við íþróttahreyfinguna. Við eigum auðvitað ekki fullkomnustu aðstöðu í öllum greinum en sá velvilji sem hreyfingin hefur mætt t.d. þegar kemur að stóru mótahaldi og afnotum af mannvirkjum, ásamt því sem hægt er að aðstoða með án beinna fjárútláta, er þakkaverð. Sveitarfélagið hefur unnið vel í að skapa aðstæður til íþróttaiðkunar þótt auðvitað megi alltaf gera betur.

Ísafjarðarbær hefur ekki tekið upp svokölluð frístundakort heldur fara styrkir sveitarfélagsins til íþróttahreyfingarinnar í gegnum Héraðssamband Vestfirðinga. HSV sér um að deila styrkjunum til íþróttafélaganna sem nýta þá í barna og unglingastarf sitt. Um þetta er mikil sátt og ánægja innan íþróttahreyfingarinnar og Ísafjarðarbæjar. Sveitarfélagið hefur fengið verðskuldaða viðurkenningu fyrir framlag sitt og önnur héraðssambönd horfa til okkar sem fyrirmynd á þessu sviði.

Sveitarfélagið rekur líka fimm félagsmiðstöðvar og er opnunartími þeirra nokkuð rúmur. Þar geta unglingar hitt jafnaldra í góðu umhverfi þar sem starfsmaður er til staðar. Þegar ég hitti kollega mína og ber sama þjónustu okkar við þeirra komum við vel út. Hér var ákveðið í niðurskurðinum 2009 að láta ekkert koma niður á barna og unglingastarfi íþróttafélaganna heldur kæmi niðurskurðurinn niður á uppbyggingu mannvirkja. Opnunartími félagsmiðstöðvanna er einstakur á landsvísu ef miðað er við fjölda íbúa á hverjum stað.

Áherslur D-listans í þessum mikilvæga málaflokki snúa að því að vera áfram í góðu samstarfi við HSV, samstarfssamningur verði endurnýjaður og farið verði í endurskoðun íþróttastarfs yngri barna með héraðssambandinu. Þá viljum við að frítt verði í strætó fyrir grunnskólabörn til að auðvelda foreldrum að koma börnum á æfingar/tómstundir og til að allir byggðakjarnar geti nýtt sér þjónustu sem einungis er hægt að fá á Ísafirði.

Við sjálfstæðismenn ætlum okkur að halda áfram því góða íþrótta- og tómstundastarfi sem byggt hefur verið upp í Ísafjarðarbæ á liðnum árum og helst gera betur. Til þess þurfum við stuðning þinn á kjördag.

Margrét Halldórsdóttir skipar 5. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokks í Ísafjarðarbæ.













Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.