Grein eftir Guðfinnu M Hreiðarsdóttur sagnfræðing sem skipar 3. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ um umhverfis- og skipulagsmál sem birtist 18. maí 2010 á bb.is má finna með því að velja þennan tengil hér
Einnig má lesa greinina hér:
Að leggja stein í gamla götu
Sú framkvæmd sem mesta athygli hefur vakið hér í bæ að undanförnu er endurbygging Gamla apóteksins við Hafnarstræti á Ísafirði. Hefur húsið verið fært til upprunalegs horfs að svo miklu leyti sem það er hægt og m.a.s. er verið að setja aftur upp fallegu svalirnar sem eitt sinn prýddu það. Eiga þeir sem að þessu verki standa miklar þakkir skyldar, bæði með tilliti til varðveislu gamals húss með merkilega sögu og fyrir að bæta ásýnd miðbæjarins þar sem húsið stendur á áberandi stað. Fleiri gömul hús hafa verið gerð upp á undanförnum árum til mikillar prýði víða í bæjarfélaginu.
Á því kjörtímabili sem nú er að ljúka var unnið aðalskipulag fyrir Ísafjarðarbæ 2008–2020 og var það nýlega samþykkt af umhverfisráðherra. Ber aðalskipulagið vitni um vönduð vinnubrögð og leggja sjálfstæðismenn áherslu á að fylgja þeirri stefnu sem þar er mótuð. Meðal annars er skýrt kveðið á um verndun gamalla húsa og götumynda með eftirfarandi að markmiðið: „Ísafjarðarbær myndi fimm aðlaðandi byggðakjarna með öflugum miðsvæðum - Hina fögru fimm - þar sem Ísafjarðarbær verði þekktur sem gamli bærinn á Íslandi.“ Jafnframt segir að sérkenni hvers byggðakjarna skuli fá að njóta sín og umhverfi bæjanna verði snyrtilegt og gefi heildstæða mynd af byggðinni. Þá segir:
Unnið verður markvisst að því að yfirbragð miðsvæða verði sem líkast því sem það var á fyrsta hluta 20. aldar en nýrri hverfi fá að þróast í takt við tíðaranda síðari tíma. Áhersla verði lögð á það að ná samfelldum bæjarhlutum í þetta horf til að ná sem mestum heildaáhrifum. Í því sjónarmiði verði öll hús, með verndargildi skv. húsakönnun, vernduð og gerð upp að utan en jafnframt verði áhersla lögð á það að endurheimta falleg hús sem nú eru horfin. Eigendur verða þó ekki þvingaðir til að ráðast í breytingar á eignum sínum. [...] Reynslan hefur sýnt að yfirbragð og umhverfi bæja ræður miklu um það hvar fólk kýs að búa. Hið sama gildir um aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Efling þessara grunnstoða mun því styrkja samfélag og efnahag svæðisins, þ.e. laða að sér íbúa og ferðamenn en einnig leiða til fjölbreyttara atvinnulífs og nýsköpunar, auk þess að efla stolt og sjálfsmynd íbúa á svæðinu.
Að baki þessari stefnu liggja tillögur skipulagshagfræðingsins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um um Hina fögru fimm. Hann lagði til að Ísafjarðarbær myndaði kjarna fimm þéttbýlisstaða sem yrði einn helsti áfangastaður ferðamanna á landinu sökum varðveislu og endurbyggingar gamalla húsa og götumynda. Í stuttu máli var hugmynd hans sú að öll hús Ísafjarðarbæjar sem byggð voru fyrir 1918 yrðu færð í upprunalegt horf og gamlar heillegar götumyndir verndaðar. Sigmundur sagði skipulagsrannsóknir sínar á evrópskum borgum sýna að mannlíf dafnaði best í þeim borgum sem hafa varðveitt eldri bæjarmyndir með verndun og endurbyggingu gamalla húsa. Erfitt hafi reynst að laða fólk inn í borgarhverfi þar sem nútímalegar byggingar eru ráðandi í götu- og bæjarmynd.
Upphaflega gerði Sigmundur ráð fyrir að 213 hús yrðu gerð upp, áætlaði 25 stöðugildi í það og kostnað upp á rúmlega milljarð. Þetta var fyrir hrun og óvíst er hver þessi tala yrði í dag. Eðlilega vex fólki í augum kostnaðurinn við Hina fögru fimm enda hægara sagt en gert að útvega fjármagn til slíkra framkvæmda. Fyrsta skrefið var hins vegar að ákveða hvort þetta væri eitthvað sem íbúarnir vildu og hvernig þeir sæju framtíð bæjarfélagsins fyrir sér. Í nýju aðalskipulagi er stefnan mörkuð - þetta er eitthvað sem við viljum vinna að. Þetta er hins vegar langtímaverkefni og taka verður eitt skref í einu.
Sjálfstæðismenn vilja að bærinn leggi sitt af mörkum til þessa verkefnis og í stefnuskrá þeirra fyrir komandi kosningar er lagt til að komið verði til móts við þá sem gera upp gömul hús með styrk sem nemur hluta fasteignagjalda. Einnig að hafin verði vinna við að gera upp götur í gömlum hverfum þannig að hús og götur myndi eina heild, s.s. með hellulögn og gamaldags ljósastaurum. Kostnaðurinn við þessa framkvæmd er mikill og þar sem fé til framkvæmda er takmarkað, er ljóst að mörg ár mun taka að vinna verkið. Nauðsynlegar framkvæmdir og viðhaldsverkefni munu alltaf hafa forgang, t.d. þær íbúðargötur í bæjarfélaginu sem enn á eftir að leggja á bundið slitlag. En um leið og fyrsti steinninn hefur verið lagður í gamla götu er verkefnið hafið.
Guðfinna M. Hreiðardóttir skipar 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ.