Grein Halldˇrs bŠjarstjˇra #4

Fjármál Ísafjarðarbæjar
Grein nr. 4 af 5

Fyrri greinar um fjármál
Í fyrri greinum sem skrifaðar eru í desember á síðasta ári og í janúar á þessu ári má lesa um kennitölur úr rekstrinum, þróun skulda, framkvæmdir, greiðslugetu og samanburð. Greinarnar má nálgast með því að velja slóðirnar hér neðst.

Þessi grein
Að þessu sinni langar mig að gera grein fyrir helstu tekjustofnum Ísafjarðarbæjar en þeir eru mjög svipaðir og hjá sveitarfélögum af sambærilegri stærð og með svipaða dreifingu byggðar. Og í greininni mun ég fjalla frekar um leiðir til að bera saman greiðslugetu sveitarfélaga.

Helstu tekjustofnar
Stærsti tekjustofninn er útsvarið eins og hjá öðrum sveitarfélögum landsins. Til er undantekning frá því en það er í tilvikum mjög lítilla sveitarfélaga með rekstur grunnskóla. Þar getur Jöfnunarsjóður verið stærsti tekjustofninn.

Hjá Ísafjarðarbæ er útsvarið sem innheimt er með tekjuskatti í staðgreiðslu 62% af tekjum sveitarfélagsins. Útsvarsprósentan er sú sama og hjá 80% sveitarfélaga í landinu, 13,28%. Þau sveitarfélög sem eru með lægri prósentu eiga ekki rétt á hlutdeild í aukaframlagi Jöfnunarsjóðs. Það framlag hefur verið um og yfir 100 m.kr. hjá Ísafjarðarbæ undanfarin ár. Ef útsvarið er ekki fullnýtt sem tekjustofn er litið svo á að sveitarfélag þurfi ekki á aukaframlagi að halda. Það myndi kosta Ísafjarðarbæ 100 m.kr. í tekjum og munar um minna.

Næst kemur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga með 28% af tekjum. Jöfnunarsjóður greiðir hlut ríkis í húsaleigubótum, framlagi vegna fasteignaskatts, sjóðurinn greiðir útgjaldajöfnunarframlag, grunnskólaframlag og ýmis smærri framlög.

Í þriðja sæti er fasteignaskattur og lóðarleiga með 10% af tekjum.

Ofangreint flokkast undir skatttekjur en til viðbótar þessum tekjum koma þjónustugjöld vegna veittrar þjónustu bæjarfélagsins.

Aðferðir við greiningu á greiðslugetu
Í grein nr. 3 af 5 fjallaði ég um getu Ísafjarðarbæjar til að standa við sínar skuldbindingar út frá hlutfalli tekna og skulda bæjarins. Þessi aðferð er mikið notuð og sýnir mjög vel hvað langan tíma þarf til að greiða upp allar skuldir og skuldbindingar. Í samanburði við önnur sveitarfélög í þeirri grein var Ísafjarðarbær undir meðaltali, þ.e. gat greitt sínar skuldir og skuldbindingar hraðar en samanburðarsveitarfélögin.

Fleiri aðferðir eru notaðar og þar má nefna veltufé frá rekstri og rekstrarniðurstöðu fyrir og eftir afskriftir og fjármagnsgjöld. Með því að horfa á rekstur og efnahag út frá sem flestum þáttum fæst besta heildarmyndin.

Veltufé frá rekstri og samanburður
Í grein nr. 3 af 5 gerði ég samanburð á nokkrum sveitarfélögum og bar saman getu þeirra til standa við skuldbindingar sínar. Þar kom Ísafjarðarbær ágætlega út með stuðulinn 1,81 sem var undir meðaltalinu 2,0.

Hér er veltufé sem hlutfall af heildartekjum skoðað hjá sömu sveitarfélögum vegna sama rekstrarárs, þ.e. 2008. Valið á þeim er handahófskennt. Eftir því sem prósentutalan er hærri því betra.

Ísafjarðarbær 8,1%, Bolungarvíkurkaupstaður 7,5%, Súðavíkurhreppur 17,2%, Grundarfjarðarbær 8,6%, Grindavíkurbær 19,8%, Reykjanesbær -10,2%, Hafnarfjörður 4,2%, Garðabær 19,8%, Kópavogsbær 9,2%, Reykjavíkurborg 16,9%, Skagafjörður 11,9%, Akureyrarkaupstaður 8,7%, Norðurþing 0,9%, Fjarðabyggð 14,9%, Árborg 6,5%.

Meðaltalið er 9,7 prósentustig. Í þessum samanburði er Ísafjarðarbær aðeins undir því meðaltali með 8,1 en þó með þokkalegt veltufé frá rekstri. Þó það náist ekki öll rekstrarár þá er ágæt viðmiðun að vera ekki undir 7%. Hafa verður í huga að rekstrarárið 2008 var óvenju erfitt hjá sveitarfélögum sem öðrum.

Lokagreinin
Í lokagrein mun ég svo taka saman það helsta sem komið hefur fram í greinunum á undan og skoða ársreikning 2009 sem tekinn verður fljótlega til fyrri umræðu. Í þeirri grein mun ég einnig fjalla um mikilvægi þess að skoða rekstur og efnahag ekki einungis útfrá einni kennitölu eins og mörgum hættir til. Það þarf að skoða heildarsamhengið. Þ.e. niðurstöðu rekstrar fyrir og eftir afskriftir og fjármagnskostnað, veltufé frá rekstri, stöðu eigin fjár og getu til að standa við skuldbindingar út frá hlutfalli tekna og skulda. Þessar fjórar aðferðir sýna manni skýrari heildarmynd en einungis einn þáttur.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Ţmsir vestfirskir tenglar

┴hugavert

Flokksstarfi­

SveitarfÚl÷g

© EirÝkur Finnur Greipsson | VefsmÝ­i: Styx ehf./Magn˙s Hßv.