Rekstur bæjarsjóðs og borgarafundur 11. apíl 2012

 

Á síðastliðnum vikum og mánuðum hefur bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar látið vinna úttekt á rekstri og stöðu bæjarsjóðs. Í þá úttekt var ráðinn Haraldur Líndal Haraldsson ráðgjafi og fyrrum bæjarstjóri hér í bæ, en skýrslan er unnin með fullri vitund og stuðningi Eftirlitsnefndar sveitarfélaga. Haraldur skilaði skýrslu sinni nú fyrir nokkru. Bæjarstjórn ákvað það samhljóða að ráða Harald í þessa vinnu og að haldinn yrði almennur borgarafundur um niðurstöður skýrslunnar.

 

Skýrslan og sú vinna og ákvarðanir sem þegar er búið að taka varðandi breytingar á rekstri bæjarins eru í fullu samræmi við málefnasamning núverandi meirihluta í bæjarstjórn, lista framsóknar- og sjálfstæðismanna. Fjöldi ábendinga og tillagna í skýrslunni eru komnar í vinnslu eða eru að komast á úrvinnslustig. Nú hefur verið ákveðið að haldinn verði almennur borgarafundur þann 11. apríl næstkomandi um skýrsluna og rekstur bæjarsjóðs. Það er einlæg von bæjaryfirvalda að íbúar fjölmenni á þennan fund og kynni sér þá vinnu og taki þátt í umræðu um endurskipulagingu á rekstri bæjarins og mögulegar lausnir. Þeim íbúum sem ekki eiga þess kost að komast á fyrirhugaðan fund skal bent á að með vorinu munu verða haldnir fundir á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri þar sem skýrslan mun m.a. verða á dagskrá.

 

Það hefur enginn vafi verið á því á liðnum misserum að mikill niðurskurður í rekstri bæjarsjóðs er nauðsyn ef ekki á illa að fara. Skuldsetning hans er komin í um 190% af tekjum og auðvitað eru margvíslegar ástæður fyrir þeirri þróun og það þrátt fyrir vilja bæjayfirvalda til að stefna í gangstæða átt. Fækkun íbúa, efnahagslegir erfiðleikar þjóðarbúsins, 2atvinnuleysi og fleiri þættir eru þar stærstu gerendurnir í þróun skulda bæjarsjóðs.

 

Í nýsamþykktum sveitarstjórnarlögum, er ljóst að lækka verður þá skuldsetningu niður í 150% hið minnsta innan 10 ára. Þá er ennfremur ljóst að ný lög heimila ekki hallarekstur á bæjarsjóði á hverju 3ja ára tímabili. Fari bæjaryfirvöld ekki að þessum lögum, þá gerist hið óumflýjanlega, Eftirlitsnefnd með fjárreiðum sveitarfélaga, mun yfirtaka stjórn bæjarins og án efa taka mun harðar á málum en bæjarstjórn og það er að sjálfsögðu engin lausn á vandanum að láta aðra um að leysa hann.

 

Megin vandi Ísafjarðarbæjar er auðvitað minnkandi tekjur, en samdráttur í þjónustu og starfsemi bæjarins hefur ekki dregist saman að sama skapi. Á liðnum árum hafa tekjur ekki dugað fyrir rekstrarútgjöldum og var svo komið að óhjákvæmilegt var að skera niður allan rekstur; laun sem önnur rekstrarútgjöld. Við þessar ákvarðanir hefur bæjarstjórn verið svo farsæl í sínum störfum, að einhugur hefur verið í afgreiðslu síðustu tveggja fjárhagsáætlana.

Við samanburð við önnur sveitarfélög kemur í ljós að launakostnaður var kominn í 63% af tekjum á meðan meðaltal sveitarfélaga í landinu var 53%. Því varð það niðurstaða bæjarstjórnar að óhjákvæmilegt væri að lækka launakostnað og í nokkrum tilvikum leiddi það til þess að fækka varð starfsfólki með skipulagsbreytingum sem voru gerðar í stjórnkerfinu. Markmiðið er að ná launakostnaði á næstu 3 árum í landsmeðaltalið. Með því erum við að stefna að því að ná að snúa undanhaldi bæjarsjóðs í sókn til átaka og uppbyggingar, en til þess þurfum við að ná til íbúanna og fá stuðning þeirra.

 

Við erum ekki stolt af því að vera meðal þeirra sveitafélaga sem leggja hvað þyngsu byrðar á herðar íbúa sinna svo sem í fasteignasköttum, sorpgjöldum né í verðlagningu leikskólagjalda. Vissulega eru hér fjölmargir jákvæðir þættir í okkar samfélagi sem vega á móti, en því miður eru þeir neikvæðu oftar en ekki ofaná í umræðunni. Það er hlutverk bæjaryfirvalda að upplýsa þegna sína um stöðu og þróun mála. Það er hlutverk bæjaryfirvalda að leita leiða með íbúunum til að byggja upp og gera gott samfélag betra.

 

Markmið okkar er að ná tökum á rekstri bæjarsjóðs, lækka álögur á íbúa og atvinnulíf, og snúa vörn í sókn. Til þess þurfum við aðstoð íbúa og atvinnulífs. Við heitum því á þig ágæti íbúi að koma á borgarafundinn þann 11. apríl næstkomandi og taka þátt í umræðum og leggja þitt af mörkum.

 

Eiríkur Finnur Greipsson formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.













Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.