Enn af málefnum Hrafnseyrar

Nánast á sama tíma og grein mín hér á síðunni "Hrafnseyri við Arnarfjörð," var birt, kom fram ritstjórnargrein í vikublaðinu Bæjarins besta sem fjallar um sama mál og er tilefni þessara skrifa minna um sama mál og fyrri grein.


Í forystugreininni er tekið undir tilhæfulausar dylgjur og í raun er hallað svo réttu máli að mig óar við, samanber: „En hví hrökkva þeir félagar, Hallgrímur og Þórður svo illilega við? Höggið kemur frá Vegagerðinni, sem vegna fyrirhugaðra hátíðarhalda á næsta ári til að minnast 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar, hyggst leggja nýja heimreið að bænum auk fjölda bílastæða, hvar væntanlega verður ekki sparað mikið malbikið.“ Síðar í greininni segir: „BB tekur undir með greinarhöfundum og spyr: Er einhver þörf á flennistóru bílaplani á Hrafnseyri, þegar „svo virðist sem fæðingarstaður forsetans eigi að vera mannlaust eyðibýli eins og verið hefur síðastliðin fimm ár nema rétt yfir hásumarið? Halda menn virkilega að 200 ára afmælis forsetans verði best minnst með nýrri heimreið og bílastæðum fyrir eðalvagna ráðamanna þjóðarinnar, malbiksklessu e.t.v. á stærð við fótboltavöll, þá stuttu stund sem þeir staldra þar við þennan eina dag ársins?“ Svo heldur ritstjórinn áfram og leggur útaf því að mikilvægara sé að koma þjóðveginum frá botni Arnarfjarðar í þá stöðu að þangað verði fært allt árið um kring!

Áður en ég tjái skoðun mína á slíkri umræðu sem hér um ræðir hlýt ég að rifja upp tilvitnun í Einræður Starkaðar (Einar Ben) þar sem segir: ,,aðgát skal höfð í nærveru sálar" þar sem hann bætti svo síðar við: ,,jafnvel þótt bæta megi smækkandi forskeyti þar fyrir fram."   Heimreiðin er minni háttar aðgerð en skapar samt nokkur umsvif á svæðinu, sem og vinna iðnaðarmanna við breytingar á safni og húsnæði. Hugleiðingar um malbik eða jafnvel steinsteypu eru hvorki frá Vegagerðinni né Hrafnseyranefnd komnar. Sem sagt hugarburður höfunda(r), þó ég verði að játa að vonir mínar standa virkilega til þess að þessi vegur verði lagður bundnu slitlagi í framtíðinni.

Það er að sjálfsögðu rétt hjá Hallgrími og Hreini að fyrst núverandi vegur hafi dugað hingað til þá geti hann dugað áfram. Hafi menn hins vegar einhvern metnað til staðarins sem þjóðargersemar þá þarf annan og framsýnni hugsunarhátt. Sjálfsagt er að halda á lofti ágæti Svalvogahringsins og enn frekar þegar Dýrafjarðargöng koma til sögunnar. Gangi vonir eftir munu æ fleiri fara Svalvogahringinn og flestir þeirra koma við á Hrafnseyri. Það er því sjálfsagt að auka þrýsting á lagfæringu hringsins þannig að um hann komist hópferðabílar. Veglegt safn og eftirsóknarvert að sækja heim getur varla gert annað en að þrýsta á bættar samgöngur.

Aldar afmæli er haldið á 100 ára fresti ef einhver skyldi vera í vafa. Stærstum hluta útgjalda afmælis- og Hrafnseyrarnefndar vegna hátíðarhaldanna verður varið til breytinga á safni og húsnæðinu á Hrafnseyri auk annarra verkefna sem allir landsmenn munu njóta. Lagfæring á heimreið breytir nánast engu þar um.

Vestfirðingar og Íslendingar allir hljóta að vilja hafa Hrafnseyri í öndvegi og geta farið þangað með erlenda vini og gesti og sýnt staðinn stoltir í ljósi þess hugar sem landsmenn, aðrir en Hallgrímur og Hreinn að viðbættum ritstjóra BB, bera til Jóns Sigurðssonar og arfleifðar hans. Ég leyfi mér að fullyrða, að auk þess að þessar framkvæmdir verða til þess að auka atvinnuframboð á svæðinu, þá er staða mála á Hrafnseyri þannig í dag að hún er ekki boðleg nútíma samfélagi.

Nær 100% öruggt er að ef Hrafnseyri væri nær höfuðborginni, hefði fjármagn til staðarins og kynningar á arfleifð Jóns ekki numið tæpum 10 millj. kr. á ári heldur margfaldri þeirri upphæð. Í því sambandi vil ég benda gagnrýnendum framkvæmdanna á Hrafnseyri á myndarleg framlög fjárveitingavaldsins til fjölmargra safna, sem við Íslendingar hljótum að vera sammála um að eru mikilvæg til varðveita arfleifð okkar og til að treysta þann grunn sem við viljum byggja íslenskt samfélag á í framtíðinni.
 













Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.