Hrafnseyri vi­ Arnarfj÷r­

Eftirfarandi grein birtist á vefmiðlinum www.bb.is, mánudaginn 16. ágúst og í Morgunblaðinu þann 19. ágúst 2010.

 

Nú standa yfir framkvæmdir á Hrafnseyri við breytingar á safni Jóns Sigurðssonar forseta, mannsins sem fékk grafskriftina: „Óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur.“


Framkvæmdirnar eru liður í fyrirhuguðum hátíðarhöldum vegna 200 ára afmælis okkar kæra þjóðfrelsisforingja. Mannsins sem að blés íslenskri alþýðu kjark í brjóst til að berjast til sjálfsbjargar og sjálfstæðis. Mannsins sem enn er vitnað til þegar efla þarf samstöðu innanlands og berja kjark í íslenska þjóð til sóknar og átaka.
Hrafnseyrarnefnd er jafn gömul íslenska lýðveldinu og hefur frá upphafi starfað að uppbyggingu á Hrafnseyri og kynningu á starfi og hugsjónum Jóns forseta. Það var því eðlilegt að nefndin beitti sér fyrir því að Alþingi Íslendinga tæki forystu í því að ákveða með hvaða hætti mætti minnast 200 ára afmælis Jóns, þann 17. júní 2011 og átti þátt í því að skipuð var afmælisnefnd til að gera tillögur um hátíðarhöld árið 2011.
Afmælisnefndin hefur starfað óslitið síðan 2007 undir styrkri forystu fyrrverandi forseta Alþingis, Sólveigar Pétursdóttur. Þegar í upphafi var ljóst að áhugi var að leggja megináherslu á uppbyggingu á Hrafnseyri. Þann 17. júní sl. gerði formaður nefndarinnar grein fyrir tillögum um fyrirhuguð hátíðarhöld, í kynningu í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fjölmargir aðilar eru þar tilkallaðir, þó nefndin hafa rifað seglin umtalsvert frá upphaflegum hugmyndum um umfang og efnistök hátíðarhaldanna. Hefur þess líka verið gætt að verkefnin verði sem flestum að gagni um leið og tengdir aðilar hafa verið leiddir saman til að nýta fjármuni sem best.
Ástæður þessara skrifa minna eru þrjár. Þær tvær fyrri eru skrif fyrrverandi staðarhaldara á Hrafnseyri Hallgríms Sveinssonar og Hreins Þórðarsonar bónda nú í þ.m. og ályktun Búnaðarfélags Auðkúluhrepps í júní 2009 um nauðsyn ábúnaðar og búsetu á staðnum allt árið, en þriðja ástæðan er grein forseta kirkjuþings Péturs Kr. Hafstein í Mbl. þann 16. ágúst sl.
Hallgrími og Hreini verður það efni til skrifa að nú sé verið að bruðla með fé almennings, eða svo vitnað sé í skrif þeirra: „Því miður verður að segjast ..., að umrædd framkvæmd er að okkar dómi algjörlega óþörf og gott dæmi um það þegar opinberir aðilar kasta fjármunum alþýðu beint út um gluggann ...“ 
Ekki ætla ég í orðaskak við fyrrverandi staðarhaldara um hvað sé bruðl og óþarfi, né heldur um önnur mál er Hrafnseyri varðar. Vil þó upplýsa að þau 13 ár sem ég hef verið formaður nefndarinnar hefur aldrei komið upp ágreiningur í nefndinni um uppbygginguna á Hrafnseyri, né heldur við fyrrverandi staðarhaldara á meðan hann var í starfi.
Vissulega er unnt að una við núverandi heimreið að fæðingarstað og safni þjóðhetju Íslendinga sem og núverandi bílastæði. Hins vegar hafa allir, þ.m.t. Hallgrímur, sem um málið hafa vélað hingað til verið sammála um að heimreiðin og bílastæðin séu bæði hættuleg og ósamboðin staðnum og minningu Jóns. Þeir sem ekið hafa heimreiðina vita að hún er bæði allt of mjó og á henni er hættuleg blindbeygja. Á bílastæðinu er ekki unnt að snúa við rútu með góðu móti.
Núverandi hugmyndir um bílastæði eru brot af þeim hugmyndum sem upphaflega voru á teikniborðinu.  Um legu heimreiðarinnar má margt segja og rétt að hún fari um grösuga bala, en það er vegna umferðaröryggis- og snjósöfnunarmála sem sú leið er valin og hefur verið frá upphafi.
Búnaðarfélag Auðukúluhrepps hefur skiljanlega af því áhyggjur að búskapur og búseta hefur lagst af á Hrafnseyri. Af hálfu nefndarinnar hefur hins vegar ekki verið talin forsenda fyrir því að krefja staðarhaldara um búskap á staðnum. Kemur þar margt til sem ekki verður rætt hér frekar. Hvorki Hrafnseyrarnefnd né ráðuneyti hafa þó lýst andstöðu sinni við ábúnað á jörðinni.
Að lyktum er ástæða þessara skrifa, ábending frá fyrrverandi sýslumanni okkar Ísfirðinga, Pétri Kr. Hafstein, um að samkomulag milli kirkjuyfirvalda og stjórnvalda um niðurskurð á fjárframlögum til Kirkjunnar nemi um það bil sömu upphæð og fyrirhuguð fjárveiting vegna hátíðarhaldanna á næsta ári. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki tengingu jafn grandvars og trausts manns og Pétur er, á þessum málum né tilganginn.
Ég er viss um að stuðningur stjórnvalda við að efla kynningu og vitund íslenskrar þjóðar á baráttu Jóns Sigurðssonar fyrir djörfung og dug til að standa í eigin fætur, til að sækja fram og til að taka ákvarðanir um uppbyggingu íslensks samfélags á grundvelli þeirra lífsins gæða og tækifæra sem hverjum tíma tilheyrir, er stuðningur sem mun skila sér margfalt til komandi kynslóða og treysta lýðræði og sjálsvirðingu Íslendinga.
Ætlað bruðl af nýrri heimreið og bílastæðum hryggir mig og það sem verra er, engin trygging er fyrir því þegar þetta er ritað að fjármagn fáist yfir höfuð í þetta verkefni. Það yrði staðnum ekki til sóma, né íslenskum stjórnmálamönnum til upphefðar, jafnvel þó hart sé í ári. Eitt lítið óhapp sem rekja má til ófullnægjandi legu og stærðar heimreiðar og bílastæða yrði öllum þeim sem að þessum málum starfa of mikið áfall til að falla frá þessum áformum.
 

Ţmsir vestfirskir tenglar

┴hugavert

Flokksstarfi­

SveitarfÚl÷g

© EirÝkur Finnur Greipsson | VefsmÝ­i: Styx ehf./Magn˙s Hßv.