Svör mín í BB-blaðagrein

Ágæti kjósandi

Hér koma spurningar blaðamanns BB og svör mín við þeim, sem birtist í blaðinu sem var útgefið í gær 4. febrúar 2010. Spurningarnar og svörin voru lögð fyrir okkur þrjú sem keppum um þriðja sætið á framboðslistanum, sem eru eins og kunnugt er auk mín Guðfinna M. Hreiðarsdóttir og Gísli Halldór Halldórsson.

 

Spurningarnar og svör mín:

1.    Fyrir hvaða málefnum hyggstu beita þér af mestum krafti á vettvangi bæjarmála í Ísafjarðarbæ?
Svar: Megin viðfangsefni kjörinna fulltrúa er að tryggja innviði sveitarfélagsins. Til að svo megi vera, verður rekstur bæjarins áfram að vera traustur og ábyrgur. Það verða því fjármálin,  rekstur sveitarfélagsins, forgangsröðun verkefna með það fyrir augum að verja grunnþjónustuna, að tryggja samstöðu meðal íbúanna og sátt um rekstur sveitarfélagsins, sem ég mun vinna að.
2.    Hverjir eru að þínum dómi helstu vaxtarsprotar til framtíðar í atvinnulífi í Ísafjarðarbæ?
Svar: Fyrir stuttu spurði ég hóp manna hvaða auðlindir við ættum hér og svarið var langt: fólkið, vatn, hreint loft, norðurljós, snjór, sjór, skammdegi, fjöll, strandlengja, fiskur, ár, landbúnaður.... já o.s.frv. Allir þessir þættir munu nýtast okkur til vaxtar, undir djarfri og jákvæðri forystu einstaklinga og fyrirtækja. Hlutverk bæjarfélagsins er að tryggja uppbyggjandi atvinnuumhverfi til að tækifærin til framfara nýtist.
3.    Hvert er viðhorf þitt til núverandi skipanar sjávarútvegsmála (kvótakerfisins)?
Svar: Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er ekki gallalaust. Í umræðum um kvótakerfið verður að gera greinarmun á stjórnunarhlutanum og fiskveiðiráðgjöfinni. Heillavænlegast er að byggja framþróun sjávarútvegsins á núverandi kerfi. Við verðum að gera betur í fiskveiðiráðgjöfinni og dýpka vísindalegu umræðuna. Núverandi stefna ríkisstjórnarinnar stórhættuleg og mjög skaðleg fyrir alla sem í greininni starfa og þar með dreifbýlið.
4.    Hvar þyrfti helst að taka til hendinni í velferðarmálum í Ísafjarðarbæ á næstu árum?
Svar: Þó verkefnin liggi víða, er það á sviði öldrunar- og leikskólamála. Börnum á leikskólaaldri verður að tryggja ódýrari aðgang en er í dag. Ég tel að stefna beri að því að sömu reglur gildi um leikskóla og grunnskóla varðandi kostnað og aðgengi. Brýn nauðsyn er á auknu hjúkrunarrými, enda skylda okkar að hlúa að öldruðum heima í héraði.
5.    Hver ættu að þínum dómi að vera næstu skrefin í samgöngumálum á Vestfjörðum?
Svar: Nú ríður á að koma samgöngum á milli Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslu í betra horf, enda mun tengingin efla þjónustu og verslun á Ísafirði og styrkja suðurfirðina. Verkefnin eru æpandi allt í kringum okkur, en vegna efnahagsþrenginga verðum við Vestfirðingar að ná samstöðu um forgangsröðun, en ég vil þó nefna í áhersluröð tollafgreiðslu á flugvöllinn (m.a. vegna Grænlands), Dýrafjarðar- og Súðavíkurgöng og hringtengingu ljósleiðara.
6.    Styðurðu frekari sameiningu sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum?
Svar: Sameiningin hér 1996 tókst og hana studdi ég heilshugar. Þvingaðri sameiningu sveitarfélaga á landsbyggðinni er ég hins vegar alfarið á móti. Ef málið er að ná fram þjóðhagslegum sparnaði þá á að sameina sveitarfélög á SV-horni landsins. Ég styð hins vegar sameiningu sem byggð er á vali íbúanna og sannfæringu þeirra um að það styrki samfélagið.
7.    Hvernig líst þér á að Vestfjarðakjálkinn yrði allur eitt sveitarfélag?
Svar: Mér finnst það geta komið til greina, en uppbygging stjórnsýslunnar yrði þó að vera með allt öðrum hætti en er í dag. Slíkar hugmyndir eru í mótun og þróun og ég hef brennandi áhuga á að taka þátt í því starfi. Ég set þó alltaf miklar spurningar í þessum efnum vegna áráttu stjórnvalda að ná til sín öllum þeim sparnaði sem sameiningar skila.
8.    Hvað finnst þér um samskipti ríkisvaldsins og íslenskra sveitarfélaga?
Svar: Sveitarfélög eru í mörgum tilvikum betur til þess fallin að sinna þjónustu við íbúa sína en ríkisvaldið. Það er því ágætis mál að sveitarfélög taki að sér fleiri verkefni sem eru nú á herðum ríksvaldsins en þá verður fjármagn að fylgja frá ríkinu í réttu samhengi við þau verkefni. Núverandi afmörkun tekjustofna sveitarfélaga verður að hins vegar að endurskoða.
9.    Telur þú að sveitarfélögin eigi að fá aukið sjálfstæði frá ríkisvaldinu?
Svar:Í mínum huga er nauðsyn á að stíga þau spor, með mikilli varúð. Breyting á núverandi stjórnskipan er ekki brýn. Mestu skiptir að sveitarfélögin um land allt vandi til verka í því að veita íbúum sínum bestu þjónustu sem völ er á en séu um leið ábyrg í meðförum sínum á skattfé borgaranna. Viðræður um flutning verkefna eru í gangi og sú vinna mun halda áfram.
10.    Hvernig meturðu útlitið í fjármálum Ísafjarðarbæjar næstu árin?
Svar: Miðað við úttekt mína á fjármálum Ísafjarðarbæjar hefur rekstur bæjarsjóðs í samanburði við önnur sveitarfélög verið ábyrgur og góður. Hættan sem við okkur blasir er öryggisleysi í atvinnumálum og frekari fækkun íbúa. Gegn þeirri þróun verður áfram að spyrna. Hér eru víða tækifæri og við þurfum að virkja enn frekar kraftinn í fólkinu og nýta þau tækifæri sem eru hér til staðar.
11.    Hvernig meturðu útlitið í fjárhag íslenska ríkisins og íslensku þjóðarinnar næstu árin?
Svar: Ég el þá von í brjósti að stjórnvöldum auðnist að skapa atvinnulífi hvetjandi rekstrarumhverfi. Því miður er núverandi ríkisstjórn að valda mikilum skaða, t.a.m. með skatthækkunum sem eru algjörlega úr hófi. Aðeins með aukinni atvinnustarfsemi, nýtingu auðlinda okkar og framleiðslu, verður unnt að tryggja hagsæld og sókn til endurreisnar, en því miður sýnist mér núverandi stjórnvöld ekki hafa neinn skilning þar á.
12.    Telur þú rétt að auka með einhverjum hætti áhrif og sjálfstæði einstakra byggðakjarna Ísafjarðarbæjar?
Svar: Mjög hröð þróun íbúalýðræðis á sér nú stað. Með opnara stjórnkerfi og þeirri samskipta- og upplýsingatækni sem sífellt eflist, tel ég aðkomu íbúanna að ákvarðanatöku um margvísleg atriði mikilvæga, sem verður að skilgreina fyrirfram. Ég sé hins vegar enga ástæðu til að stíga skref til „sjálfstæðis byggðakjarnanna“ umfram það.
13.    Telur þú rétt að gera einhverjar umtalsverðar breytingar á stjórnskipan Ísafjarðarbæjar?
Svar: Ekkert mannanna verk stenst tímans tönn. Stjórnskipan bæjarins á sífellt að vera í endurskoðun, en hallarbyltingar eru ekki lausnin. Með gagnrýnni en uppbyggjandi endurskoðun verðum við að tryggja sem stystar boðleiðir í stjórnsýslunni og gegnsæi ákvarðana bæjaryfirvalda.
14.    Telur þú að minnihlutinn í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hafi starfað með ábyrgum og uppbyggilegum hætti á því kjörtímabili sem nú er senn á enda?
Svar: Minnihluti bæjarstjórna á að hafa það hlutverk að veita meirihluta aðhald á öllum sviðum. Af þeim afskiptum sem ég hef haft af bæjarmálapólitíkinni, sem eru ekki mikil undanfarin ár, finnst mér minnihlutinn vera mjög gamaldags í framsetningu sinni á gagnrýni og aðhaldi, um leið og ég lýsi ánægju minni með farsæla stjórn meirihlutans.
15.    Ríkir bjartsýni í huga þér varðandi framtíð Ísafjarðarbæjar og byggðar á Vestfjörðum í heild?
Svar: Já. Hingað fluttum við hjónin 1980 og líður vel. Áföll og hindranir eru til að yfirstíga og af þeim er líka nóg af á öðrum stöðum. Við erum ekki ein um það í heiminum að íbúum fækki á landsbyggðinni. Það er hins vegar staðföst trú mín að við munum ná vopnum okkar að nýju og i þeim tilgangi býð ég fram krafta mína til forystu í bæjarmálum Ísfirðinga.
 













Ýmsir vestfirskir tenglar

Áhugavert

Flokksstarfið

Sveitarfélög





© Eiríkur Finnur Greipsson | Vefsmíði: Styx ehf./Magnús Háv.